Öryggismál eru mikilvæg í starfsemi NLSH, öryggisnámskeið í samstarfi við Eykt

2. desember 2020

NLSH leggur mikla áherslu á vinnuverndar – og öryggismál við hönnun og framkvæmdir í Hringbrautarverkefninu. Eykt ehf er verkframkvæmdaaðili við uppsteypu á nýjum meðferðarkjarna en vinna við uppsteypuna hefst eftir áramótin og munuppsteypan taka um þrjú ár. 

Í dag var haldið öryggisnámskeið hjá Eykt fyrir þá starfsmenn sem koma að uppsteypuverkefninu en námskeiðið tekur mið af lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Námskeiðið var haldið í samstarfi NLSH og Eykt.

Farið var yfir atriði varðandi öryggi á framkvæmdasvæðinu, öryggisreglur og til hvers konar hegðunar er ætlast af starfsmönnum svo að viðvarandi öryggismenning megi einkenna uppsteypuframkvæmdina.

Hildur Hrólfsdóttir umhverfis – og öryggisstjóri NLSH: „Vinnuvernd og umhverfismál eru forgangsmál við byggingu nýja þjóðarsjúkrahússins og verða því ávallt í brennidepli meðan á framkvæmdum stendur. Takmark verkkaupa er það að komið verði í veg fyrir heilsutjón, vinnu- eða umhverfisslys með virkri samvinnu og samræmingu allra sem að framkvæmdinni koma. Við fögnum því reynslu og viðhorfum Eyktar til þessa málaflokka. Allar byggingar á svæðinu, sem hægt er að votta, verða vottaðar samkvæmt vistvottunarkerfinu BREEAM og gerðar eru ítarlegar kröfur í útboðsgögnum til hönnuða og verktaka varðandi öryggis- og umhverfismál. Þær kröfur sem BREEAM vottunarferlið gerir til okkar allra sem að verkinu koma, reynast okkur einnig verðmætar leiðbeiningar um bestu starfsvenjur og aðstoða okkur þannig í því að ná takmarki okkar í öryggismálum“.

John Hansen öryggisstjóri Eyktar: Við hjá Eykt leggjum mikla áherslu á öryggismál og á öryggi okkar starfsmanna á verkstað. Við höfum átt gott samstarf við NLSH varðandi öryggisþáttinn í undirbúningi okkar að þessu stóra uppsteypuverkefni á nýjum spítala. Frá Eykt koma mjög margir starfsmenn að þessu verkefni með einum eða öðrum hætti og því krefst verkefnið mikils undirbúnings af okkar hálfu. Við skiptum hópnum okkar í hópa sem munu sækja námskeið með reglubundnum hætti. Við höfum mikla reynslu af stærri verkefnum og sú reynsla á eftir að nýtast okkur vel í þessu verkefni“.