Öryggismálin í öndvegi

3. febrúar 2022

Í samstarfi við HSE Consulting hefur NLSH tekið upp lausn í öryggismálum sem kemur frá Standard Solutions Group (SSG) í Svíþjóð. Um er að ræða öryggisnámskeið og tvö rafræn próf og þegar þeim er lokið fá starfsmenn aðgang að vinnusvæðinu. Þar sem starfsmennirnir koma víðs vegar að geta þeir tekið prófið á eigin tungumáli og þannig er tryggt að skilningur á efninu sé réttur. Að loknu prófi fá starfsmennirnir vottorð sem gildir í þrjú ár.

Mikilvægt verkfæri í framhaldi er farsímaapp sem getur nýst til miðlunar um mikilvæg öryggisatriði svo sem fatnað, kort af svæðinu og hlið og fréttir sem varða öryggi á vinnusvæðinu. Appið nýtist einnig sem gagnkvæmur miðill á milli starfsmanna og stjórnenda, til dæmis í atvikatilkynningar og inniheldur hnapp til að hringja í Neyðarlínuna. Appið er bæði á íslensku og ensku.