Rýni á áætlunum Nýs Landspítala

1. apríl 2022

Stýrihópur um skipulag framkvæmda við Landspítala réð breska ráðgjafafyrirtækið Oxford Global Projects til að rýna kostnaðar- og tímaáætlanir Nýs Landspítala og bera saman við sambærileg verkefni erlendis. Stýrihópurinn vildi með því fullvissa sig um gæði áætlana verkefnisins.

Oxford Global Projects kynnti nýlega afrakstur vinnunnar og meginstrauma. Niðurstöðurnar nýtast vel við áframhaldandi vinnu, en ekki er um að ræða veruleg frávik, en vissulega er varpað ljósi á þá staðreynd að tímalína stærri verkefna getur alltaf raskast á undirbúningsstigi og framkvæmdastigi vegna ófyrirséðra atvika.

Ingi Erlingsson, sviðsstjóri fjármála- og þjónustusviðs hjá NLSH, starfaði með ráðgjöfunum á umliðnum mánuðunum og hann segir að “það hafi verið gott skref hjá stýrihópnum að leita til þessara aðila. NLSH hefur vissulega látið rýna áætlanir sínar bæði innanlands og erlendis, en það er alltaf mikilvægt að áætlunargerð í jafn stórum verkefnum og unnið er að sé vel vörðuð. Þessi viðbót hafi verið mikill fengur. Við hjá NLSH munum geta nýtt okkur afurð Oxford Global Partners og það skapar einnig ákveðinn aga og festu að hafa þessar leiðarlínur”. Ingi segir að sífellt sé verið að endurrýna kostnaðar- og tímaáætlanir enda margt sem þarf að skoða í ólíkum verkþáttum sem tengjast allir saman. “Það er mikilvægt að gæði áætlana séu sem best.”

Talið frá vinstri eru þau Gunnar Guðni Tómasson, Samuel Franzen, Andreas Lead, Ingi Jóhannes Erlingsson og Unnur Brá Konráðsdóttir.