Fréttir


Samið um uppbyggingu húss Heilbrigðisvísindasviðs HÍ

1. júlí 2024

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Þorvaldur H. Gissurarson, forstjóri ÞG verks, undirrituðu í dag samning um uppsteypu og frágang á nýju húsi Heilbrigðisvísindasviðs sem rísa mun á Landspítalalóðinni.

Áætlað er að nýtt hús og endurbættur Læknagarður muni hýsa stóran hluta af starfsemi sviðsins og að framkvæmdir taki alls um fimm ár.

ÞG verk átti lægsta tilboð í útboði verksins sem fram fór fyrr á þessu ári. Útboðið var í höndum NLSH þar sem uppbyggingin er hluti af allsherjaruppbyggingu á Landspítalasvæðinu.

Nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs er afrakstur áralangrar þróunar og vinnu innan og utan HÍ með það að markmiði að efla kennslu, rannsóknir og nýsköpun á sviði heilbrigðisvísinda í nánu samstarfi við Landspítala.

Skóflustunga að húsinu, sem rísa mun austan við Læknagarð og tengjast honum, var tekin fyrir tæpu ári og jarðvinnu við nýbygginguna hefur miðað vel. Breytingar hafa hins vegar orðið á hönnunarforsendum sem þýðir að heildarstærð hins nýja og breytta húss Heilbrigðisvísindasviðs verður samanlagt um 20.200 fermetrar. Þar af er nýbyggingin um 11.300 fermetrar og lýkur fullnaðarhönnun hennar nú í haust. Áætlað er að endurhönnun á Læknagarði ljúki í nóvember.

Stefnt er að því að uppsteypu og ytri frágangi á nýbyggingunni ljúki sumarið 2026 og gert er ráð fyrir að hægt verði að flytja inn í hana á fyrri helmingi ársins 2028. Endurbætur í Læknagarði hefjast í framhaldinu og áætlað er að þeim ljúki á árinu 2029. Allar tímasetningar eru með fyrirvara um fjárheimildir og þátttöku í útboðum. Við þetta má bæta að nýbyggingin verður umhverfisvottuð samkvæmt BREEAM-staðlinum líkt og aðrar nýbyggingar á Landspítalasvæðinu við Hringbraut.

„Menntun heilbrigðisstarfsfólks er lykilatriði þegar kemur að mönnun heilbrigðiskerfisins. Að sameina einingar á sviði heilbrigðisvísinda undir einu þaki mun stuðla að betri samvinnu við kennslu og rannsóknir og þetta hús á eftir að styrkja náið samstarf Landspítala og Háskóla Íslands. Forsenda þess að hægt sé að fjölga nemum er að innviðir séu góðir og það er óhætt að segja að þessi nýbygging eigi eftir að stórbæta aðstöðu heilbrigðisvísinda,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

„Hér er stigið afar mikilvægt skref í byggingu húss Heilbrigðisvísindasviðs. Aðdragandinn að þeirri uppbyggingu sem er fram undan hefur verið langur eða hátt í tveir áratugir. Nýbyggingin ásamt endurgerðum Læknagarði mun gjörbreyta aðstöðu Heilbrigðisvísindasviðs til hins betra. Ég vil þakka öllum þeim sem komið hafa að verkefninu fyrir ómetanlegt framlag,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

„Það er virkilega ánægjulegt að vera þáttakandi í þessu metnaðarfulla verkefni og þeirri uppbyggingu á Landspítalasvæðinu sem nú stendur yfir. Við hjá ÞG verktökum eigum gott samstarf og samskipti við starfsfólk NLSH og hlökkum til að ráðast í og reisa hið nýja hús Heilbrigðisvísindasviðs,“ segir Þorvaldur H. Gissurarson, forstjóri ÞG verks.

„Í dag færumst við nær langþráðum draumi um að sameina stóran hluta starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs á einum stað á lóð Landspítala – háskólasjúkrahúss. Þessi nýja bygging með endurbættum Læknagarði er afar mikilvægur liður í því að efla samstarf sviðsins og Landspítala, samnýta og þróa áfram sameiginlega innviði til rannsókna, kennslu og klínískrar þjálfunar og jafnframt byggja upp frjóan samstarfsvettvang þverfræðilegra vísinda og nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu,” segir Unnur Anna Valdimarsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ.

Texti við mynd: Frá vinstri: Unnur Anna Valdimarsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra, Þorvaldur H. Gissurarson, forstjóri ÞG verks, og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu HÍ. Þau Þorvaldur, Áslaug og Jón Atli undirrituðu samninginn en Unnur Anna og Guðmundur vottuðu.