Samningsundirskrift vegna fullnaðarhönnunar nýs rannsóknahúss

7. október 2018

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, undirritaði samning um fullnaðarhönnun rannsóknahúss sem er hluti af Hringbrautarverkefninu. Fyrir hönd Corpus3 undirritaði Grímur Már Jónasson samninginn.

Rannsóknahúsið er hluti af heildaruppbyggingu Nýs Landspítala við Hringbraut. Aðrar byggingar eru meðferðarkjarninn, sem er stærsta byggingin í uppbyggingu Hringbrautarverkefnisins, nýtt sjúkrahótel, sem verður tekið í notkun á árinu og bílastæða-, tækni- og skrifstofuhús.


Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra; Sameining allrar rannsóknastarfsemi Landspítala á einn stað mun gjörbreyta allri umgjörð á rannsóknastarfsemi spítalans. Uppbygging heilbrigðisþjónustunnar er forgangsmál og nýtt rannsóknahús er þar mikilvægur áfangi“.


Með tilkomu rannsóknahúss verða einnig mikil samlegðaráhrif við Háskóla Íslands, en háskólinn mun reisa nýtt hús heilbrigðisvísindasviðs sem verður tengt rannsóknahúsinu.


Kostnaðaráætlun verksins er kr. 670.890.000 og var tilboð Corpus3 kr. 477.286.560 (71,1% af kostnaðaráætlun).


Corpus3 samanstendur af eftirtöldum fyrirtækjum: Basalt arkitektar, Hornsteinar arkitektar, Lota ehf og VSÓ ráðgjöf.


Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri NLSH: „Stórum áfanga er náð við samningsundirskriftina hér í dag. Nýtt rannsóknahús er ein af meginbyggingum í heildaruppbyggingu Nýs Landspítala við Hringbraut. Áætlanir NLSH eru þær að nýtt rannsóknahús verður tekið í notkun á árinu 2024 í samræmi við fjármálaáætlun“.