Samningsundirskrift vegna stækkunar húsnæðis Grensásdeildar Landspítala
Í dag undirrituðu heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, og Karl Andreassen, forstjóri Ístaks, samning Nýs Landspítala ohf. vegna nýbyggingar við núverandi húsnæði Grensásdeildar Landspítala. Auk þess vottuðu samninginn Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala og Guðrún Pétursdóttir formaður Hollvina Grensásdeildar.
Samningurinn nær til uppsteypu burðarvirkja og fullnaðarfrágangs á ytra byrði og vinnu við innanhússfrágang. Nýbyggingin verður um 4.400 m2 verður vestan við núverandi húsnæði þar sem komið verður upp aðstöðu fyrir sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun með tengingum við núverandi byggingar. Í nýbyggingunni verður einnig komið fyrir nýrri 19 rúma legudeild og aðstöðu fyrir sjúklinga, útisvæði og tómstundarými ásamt nýju eldhúsi og matstofu. Stefnt er að þvi að framkvæmdir hefjist í ágústmánuði og ljúki á árinu 2026.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra: „Grensásdeild er leiðandi í endurhæfingarþjónustu hér á landi og ég er sannfærður um að hið nýja húsnæði mun styðja vel það öfluga starf sem fram fer á Grensásdeild Landspítala á hverjum degi,“.
Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri Nýs Landspítala: „Ennþá eitt skrefið hér í Grensásverkefninu með þessum samning um fullnaðarfrágang nýbyggingarinnar. Jarðvinnuþátturinn og hönnunarstörfin gengu almennt vel og ber að þakka öllum þeim sem hafa komið verkefninu hingað á þennan stað. Það er engin bilbugur á neinum gagnvart markvissri uppbyggingu hér á þessum góða og mikilvæga stað,“.
Karl Andreassen forstjóri Ístaks: "Við hjá Ístak erum stolt af því að vera hluti af uppbyggingu Grensás verkefnisins. Það er ánægjulegt að taka þátt í verkefni sem þessu í þágu samfélagsins sem fellur vel að þeim verkum sem að við höfum unnið að í nær 55 ára sögu fyrirtækisins,”.
Forsíðumynd: Við undirritun samnings. Frá vinstri: Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, Karl Andreassen, forstjóri Ístaks, Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra og Guðrún Pétursdóttir, formaður Hollvina Grensásdeildar.