Samningsundirskrift vegna uppsteypu á nýju þjóðarsjúkrahúsi

22. desember 2020

Í dag undirrituðu Ásta Valdimarsdóttir, ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu, fyrir hönd heilbrigðisráðherra og Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri NLSH, samning við Eykt ehf um uppsteypu á nýju þjóðarsjúkrahúsi. Fyrir hönd Eyktar undirritaði Páll Daníel Sigurðsson samninginn. Auk þess vottuðu Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður stýrihóps um skipulag framkvæmda við Landspítala, samninginn ásamt Páli Matthíassyni forstjóra Landspítala. Stefnt er að þvi að uppsteypuverkefnið hefjist strax á nýju ári.

Meðferðarkjarninn, sem verður um 70 þúsund fermetrar að stærð, er stærsta byggingin í uppbyggingu við nýjan Landspítala við Hringbraut. Aðrar byggingar eru rannsóknahúsið, bílastæða og tæknihús og nýtt sjúkrahótel sem þegar hefur verið tekið í notkun.

Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri NLSH ohf:

„Starfsmenn Eyktar og NLSH hafa á undanförnum vikum verið að undirbúa verkið á fullri ferð og því má segja að undirskriftin hér í dag sé stór áfangi í þeirri vinnu. Verktakinn mun koma vel mannaður á nýju ári á verksvæðið og um leið hafa verið gerðir fjölmargir samningar vegna tæknilegra þátta, verkeftirlits, vinnubúða, öryggis- og aðgangsmála en einnig við danska áætlunargerðafyrirtækið Exigo. Það verður spennandi fyrir verktaka- og verkaupamarkaðinn að sjá framþróun þess í stórum verkum. Hér er einstakt tækifæri fyrir íslenskan byggingariðnað að taka skrefin fram á við og gera enn betur. Mörg önnur stór verkefni eru í farvatninu svo sem bílakjallari, bílastæða- og tæknihús og jarðvinna fyrir rannsóknarhúsið. Þetta eru allt stór útboðsverk á leið í loftið og bíða starfsmenn NLSH þeirra með eftirvæntingu á nýju ári.“

Páll Matthíasson forstjóri Landspítala:

„Á Landspítala fögnum við hverjum þeim skrefum sem tekin eru uppbyggingu Landspítala. Þetta er svo sannarlega eitt af þeim allra stærstu svo þetta er vegleg jólagjöf til Landspitala og þjóðarinnar sem hann þjónar. Við eru þakklát öllum þeim sem að þessu mikla uppbyggingaverki hafa komið, ekki hvað síst þeim sem barist hafa fyrir framgangi verkefnisins í talsverðu andstreymi á stundum. Það er sannarlega farið að birta við Hringbraut.“

Nánar um uppsteypuverkefnið:

Helstu verkefni Eyktar eru að steypa upp undirstöður og tvo kjallara byggingarinnar ásamt þvi að sjá um alla aðstöðusköpun á framkvæmdasvæðinu. Burðarvirki þess hluta byggingarinnar eru veggir, súlur, eftirspenntar plötur, auk botnplötu og undirstaðna. Þá sér Eykt um að steypa upp efri hluta byggingarinnar, þ.e. hæðir 1 – 6. Burðarvirki efri hluta byggingarinnar er í meginatriðum rammar, súlur og eftirspenntar plötur. Einnig verður ráðist í að steypa tengiganga af hálfu Eyktar, leggja lagnir og smíða stálvirki við lyftukjarna byggingarinnar. Umfangið er mikið en mótafletir eru áætlaðir um 220.000 m² og steypan nær 60.000 m³ þegar allt er til talið. Áætlað er að bendistálið sé um 12 þúsund tonn en meðferðarkjarninn er um 70.000 m² eða um 320.000 m³ með tengigöngum í verkinu. Við hlið meðferðarkjarnans verður síðan reistur tveggja hæða bílakjallari sem er um 7.000 m².

Á mynd f.v Páll Matthíasson forstjóri Landspítala. Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri NLSH, Ásta Valdimarsdóttir ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneyti, Páll Daníel Sigurðsson framkvæmdastjóri Eyktar ehf og Unnur Brá Konráðsdóttir formaður stýrihóps um skipulag framkvæmda við Landspítala