Samningur undirritaður um rörpóstkerfi í meðferðarkjarna og rannsóknahúsi

1. júlí 2021

Þann 28. júní var undirritaður samningur milli NLSH og Aerocom Norge AS um kaup og uppsetningu á rörpóstkerfi sem mun þjóna meðferðarkjarna og rannsóknahúsi.

Rörpóstur er rörakerfi sem teygir sig inn á allar deildar meðferðarkjarnans og yfir í rannsóknahúsið. Eftir þessu rörakerfi ferðast hylki sem eru 16 cm í þvermál og um 40 cm löng. Það eru blásarar sem blása hylkjunum á milli stöðva, en á leið þeirra eru brautarstöðvar sem flytja hylkin sjálfvirkt milli greina í kerfinu. Heildarlengd röranna er um 4 km og stöðvar til að senda hylki og taka á móti þeim verða um 75. Í þessum hylkjum verða flutt sýni frá deildum yfir í rannsóknahúsið, lyf frá apótekinu yfir á deildir og ýmislegt annað. Það tekur hylkið um 5-8 mínútur að ferðast á milli staða. Með þessu móti komast sýni hraðar til rannsóknadeildanna og það flýtir fyrir greiningu. Lyf berast frá apóteki á örskömmum tíma. Reiknað er með 1200 hylkjasendingum á sólarhring og hylkin fari síðan tóm til baka á sína heimastöð.

Samninginn undirrituðu fyrir hönd NLSH Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri og fyrir hönd Aerocom Norge AS Hans-Petter Trondrud framkvæmdastjóri.