Sátt um uppbyggingu Landspítala við Hringbraut

11. apríl 2016

Landssamtökin Spítalinn okkar fagna tveggja ára afmæli um þessar mundir. Samtökin hafa það markmið að afla stuðnings meðal almennings og stjórnvalda við úrbætur á húsakosti Landspítalans við Hringbraut.


Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarmaður í samtökunum, birtir grein í Morgunblaðinu 9.apríl þar sem hann fjallar m.a. um uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut.


„Hringbraut hefur margítrekað verið staðfest sem besti staðurinn af fjölda ráðgjafa, forstjórum Landspítala, borgarstjórn Reykjavíkur, sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og Alþingi Íslendinga“, segir Þorkell.


„Alþingi hefur samþykkt núverandi staðsetningu við Hringbraut oftar en einu sinni. Svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið 2015-2040 liggur fyrir samþykkt af öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Aðalskipulag fyrir Reykjavík og deiliskipulag fyrir Landspítalareitinn hefur verið samþykkt. Búið er að semja við hönnuði að undangengnu útboði og hönnun spítalans er í fullum gangi með þátttöku starfsfólks, sjúklinga, innlendra og erlendra ráðgjafa og hönnuða.

Verkframkvæmd er hafin og fyrsta byggingin, sjúkrahótel, verður risin á vormánuðum 2017“, segir Þorkell meðal annars í grein sinni.