Sex og fimm hópar tóku þátt í forvalinu

18. júlí 2013

Umsóknir þátttakenda í forvali fyrir hönnun nýrra bygginga við Landspítalann voru opnaðar hjá Ríkiskaupum í dag. Forvalið var tvískipt, annars vegar var um að ræða forval fyrir hönnun sjúkrahótels og bílastæðahúss og hins vegar fyrir hönnun meðferðarkjarna og rannsóknarhúss.

Sex hópar skiluðu inn gögnum fyrir hönnun sjúkrahótels og bílastæðahúss, en það voru Hnit verkfræðistofa hf., Kos, Arkitektastofan OG ehf. og Vsb verkfræðistofa ehf., Mannvit hf., Corpus 2 og Verkís hf. 

Fimm hópar skiluðu gögnum fyrir hönnun meðferðarkjarna og rannsóknarhúss, en það voru, Mannvit hf., Corpus 2, Verkís hf., Kos og Salus.

Niðurstaða kynnt í ágúst

Miðað er við að niðurstaða forvalsins verði kynnt 21. ágúst en þá mun verða ljóst hvaða þátttakendur uppfylla kröfur forvalsgagna. Þeir sem það gera verður boðið að taka þátt í lokuðum aðskildum útboðum fyrir fjórar byggingar: um 58.500 m2 meðferðarkjarna, um 14.000 m2 rannsóknarhús, um 21.300 m2 bílastæðahús og um 4.000 m² sjúkrahótel.

Niðurstöður forvalsins skulu gilda í níu mánuði eftir að þær liggja fyrir. Ekki er gefin einkunn fyrir hæfni og reynslu og því mun tilboðsfjárhæð hafa 100% vægi í hönnunarútboðunum. Þeir fyrirvarar voru gerðir strax í upphafi að útboð á hönnun muni þá aðeins fara fram að verkefninu verði tryggð fjármögnun á fjárlögum. 
  
Undirbúningur vegna fyrsta áfanga uppbyggingar við Hringbraut hefur nú staðið um þó nokkurt skeið, en í nóvember lauk SPITAL hönnunarteymið við forhönnun heildarverkefnisins. SPITAL vann einnig tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Landspítalareit sem tók gildi 4. apríl.