Síðasta steypa í bílastæða- og tæknihúsi steypt fljótlega
Síðasta steypa í bílastæða- og tæknihúsinu verður steypt í september þegar plata yfir lyftustokki verður steypt. Vinna við innanhússfrágang er í fullum gangi og verið er að einangra og múra veggi í tæknihluta hússins.
Einnig er verktaki að slípa veggi og plötur. Unnið er í rafmagni og pípulögnum og einnig er verið að undirbúa uppsetningu vatnsúðakerfis.Verktaki hefur lokið við að steypa upp lagnagang sem liggur á milli bílastæðahúss og rannsóknahúss. Gengið verður frá honum að utan og síðan fyllt yfir. Einnig er verið að steypa upp tengigang norður sem mun liggja frá bílastæðahluta hússins að rannsóknahúsi og meðferðarkjarna.
„Stefnt er að því að taka bílastæðahluta hússins í notkun í byrjun árs 2025 og verið er að undirbúa vinnu við lagnir sem fara eiga í Hvannargötu sem liggur niður með austurhlið hússins. Unnið verður við fyllingar að bílastæðahúsinu og verður gatan hækkuð sem nemur um rveimur metrum við bílastæðahús og við Vatnsmýrarveg í byrjun árs 2025,“ segir Sigurjón Sigurjónsson, verkefnastjóri hjá NLSH.