Sjúkrahótel æ mikilvægari

11. febrúar 2013

Sjúkrahótel hafa víða um lönd orðið æ mikilvægari þáttur í þjónustu við sjúklinga og aðstandendur þeirra en mikilvægt er að þau séu nálægt sjúkrahúsum og helst innangengt þar á milli. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í grein Jóhannesar M. Gunnarssonar, læknis og læknisfræðilegs verkefnastjóra NLSH, sem birtist í Morgunblaðinu á föstudag. 

Í greininni útskýrir hann meðal annars hlutverk sjúkrahótela.

"Rekstur sjúkrahúsa verður sífellt dýrari einkum vegna framfara í heilbrigðisþjónustunni. Með meiri þekkingu, aukinni tækni og nýjum lyfjum er hægt að veita meiri þjónustu en áður var mögulegt. Sjúkrahús leitast því við að sinna öllum þeim sjúklingum sem mögulegt er án innlagnar. Sjúkrahótel í nálægð sjúkrahúss er mikilvægur stuðningur við þessa þróun. Það hefur sýnt sig að notagildi slíkra hótela eykst verulega við það að vera í mikilli nálægð við sjúkrahúsið og að innangengt sé milli sjúkrahúss og sjúkrahótelsins. Þannig njóta gestir stuðnings og öryggis af nálægðinni."

Ýmsir hópar nota þjónustuna
Þá segir ennfremur í greinni: "Fjölmennustu hópar notenda sjúkrahótela eru konur og börn sem koma þangað nokkrum klukkustundum eftir fæðingu, foreldrar barna sem þurfa að vistast á vökudeild um lengri eða skemmri tíma eftir fæðingu og þurfa að koma reglulega til mjólkurgjafar eða einfaldlega að vera í nálægð hins nýja lífs sem hangir á bláþræði. Þá er að nefna foreldra langveikra barna sem mörg dvelja langdvölum á sjúkrahúsi, krabbameinssjúklingar sem eru í þéttri eða jafnvel daglegri geisla- eða lyfjameðferð. Sjúklingar sem eru í blóðskilun er einnig stór hluti notenda og að síðustu má nefna sjúklinga eftir skurðaðgerðir og þá sem eru í rannsóknum og að öðrum kosti þyrfti að leggja inn í dýr legupláss spítalans. Sjúklingar sem eiga um langan veg að fara og geta komist hjá innlögn á spítalann svo og aðstandendur þeirra hafa einnig mikil not af sjúkrahóteli. Af þessari upptalningu, sem ekki er tæmandi, ætti að vera augljóst hve nálægð við spítalann er mikilvæg og samspil sjúkrahúss og hótels ekki síður."

Greinin í heild sinni