• New national hospital

Skipulags- og umhverfisslys í miðborg Reykjavíkur

11. febrúar 2006

Á undanförnum árum hefur vaknað mikill áhugi á skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu. Fólk hefur látið skipulagsmál sig miklu varða enda mikið í húfi þar sem mikilvæg svæði eins og Vatnsmýrin, Hringbraut, Hafnarsvæðið í Reykjavík hafa verið efst á baugi. Öll þessi umræða, skoðanaskipti og ágreiningur er af hinu góða þar sem hinn almenni borgari lætur heyra í sér með meiri krafti en oft áður. Í þessum pistli ætla ég að bera á borð nokkur dæmi sem hafa verið mikið í umræðunni undanfarið og gera grein fyrir þeim mistökum sem hafa átt sér stað í skipulagi í borginni. Fyrst ætla ég að fjalla lítillega um færslu Hringbrautar og Landsspítalann háskólasjúkrahús (LSH) og á næstu vikum mun ég taka fyrir önnur svæði í miðborg Reykjavíkur.

Fyrst skal nefna umferðar- og skipulagsslysið við Hringbraut og færslu hennar til suðurs. Skipulagsyfirvöld hafa sagt lengi að þess sé þörf, sérstaklega til að skapa byggingarland fyrir stækkun LSH. Fólk hefur svo sem skilið þessi rök enda mikilvægt fyrir alla að hafa góða heilsugæslu og spítala miðsvæðis í höfuðborginni. Enginn átti von á þessari hrikalegu hraðbraut sem var byggð, hvað þá þessari stóru og útbreiddu spítalaborg sem er nú á teikniborðinu. Hraðbrautin Hringbraut er algerlega misheppnuð. Nokkrir punktar fylgja hér máli mínu til stuðnings:

* Ein af frumreglum umferðartækni til að hámarka umferðargetu gatnakerfisins er að ekki sé gefinn kostur á auknum hraða á stuttum köflum eins og gert er á nýju Hringbrautinni. Hægari umferð á stöðugri hreyfingu getur afkastað töluvert fleiri bílum. Þessi frumregla er algerlega hundsuð í hönnun og skipulagningu nýju Hringbrautarinnar. Afleiðingin er einfaldlega óstöðugt umferðarflæði og minni afköst bílaumferðar.

* Þar sem flöskuhálsar eru í báðum endum brautarinnar, við Lönguhlíð og við Hagatorg, getur Hringbrautin aldrei virkað sem skyldi, ekki einu sinni sem hraðbraut. Við búum í vaxandi borg með aukinni umferð. Að setja hraðbrautarstubba í borgina gerir umferðina miklu verri. Spennandi verður að sjá hvaða "snjallræði" skipulagsyfirvöld og umferðarsérfræðingar þeirra koma með til að leysa þessa flöskuhálsa, ef þeir verða nokkurn tímann leystir.

* Umhverfis- og sjónspilling er mikil vegna ofurvaxinna göngubrúa yfir hraðbrautina Hringbraut sem fara frá engu í ekki neitt. Úr tómri mýrinni yfir á tómt eyðisvæði sem myndast hefur við þessa framkvæmd. Hvað með að ganga yfir á ljósum þar sem þarna eru ljósastýrð gatnamót fyrir? Maður áttar sig ekki á því hvaða fjöldi fólks á að nota þessar risastóru, dýrkeyptu göngubrýr sem komið er upp með nokkur hundruð metra millibili. Til að fullkomna vitleysuna hefur verið ákveðið að færa stóru bensínstöðina við Geirsgötu í miðbænum niður í Vatnsmýrina við hraðbrautina Hringbraut sem er verðmætasta landssvæði okkar Reykvíkinga. Þetta er dropinn sem fyllir mælinn og sýnir einstaka skammtímastefnu og hugsunarleysi R-listans.

* Þessi færsla á Hringbrautinni skapar nýtt byggingarsvæði fyrir LSH, en hvað með stækkunarmöguleika til framtíðar? Margar raddir hafa heyrst um stærð þessa spítala, en víst er að stór spítali á fáum hæðum er ekki ákjósanlegt innra skipulag fyrir spítala af þessari stærð vegna langra ganga og ferða milli deilda innan spítalans.

Á meðan flugvöllurinn er í Vatnsmýrinni er ekki leyfilegt að byggja hærra á þessu svæði sökum öryggisástæðna. Eins og skipulagshugmyndin sem vann samkeppni um stækkun spítalans sýnir, þá er ekki auðvelt að stækka spítalann í framtíðinni, ekki nema að færa Hringbrautina aftur! Að vísu má gera ráð fyrir að þá verði Vatnsmýrin að mestu leyti byggð og hefur spítalinn þá enga stækkunarmöguleika. Gaman hefði verið að sjá stækkun LSH í Fossvoginum þar sem er ennþá nægt byggingarland og möguleiki á að byggja hærri byggingar sem leiðir til betra innra skipulags spítalans. Sú staðsetning er nær miðju höfuðborgarsvæðisins og í betri tengslum við allar helstu umferðaræðar borgarinnar. Tel ég Fossvoginn skynsamlegri kost en að troða LSH í miðbæinn, við Hringbraut, með skóhorni.

Nú spyr maður sig hvers vegna eru svona margar og miklar rangar ákvarðanir teknar vegna þessa máls? Svarið er pólitísk skammtímastefna R-listans sem ræður ríkjum: Gera sem mest og hugsa sem minnst. Önnur ástæða er að þetta mál var búið að vera svo lengi á framkvæmdaáætlun að ekki var hægt að bíða lengur eins og skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar vildu meina fyrir rúmlega ári síðan. Þetta er sambland af lélegri ákvarðanatöku hjá Reykjavíkurborg, ásamt því að vera ýtt hugsanalaust áfram af meirihluta borgarstjórnar til að sýnast fyrir borgarbúum sem framkvæmdarafl.

Skipulagsmál eiga að vera minna pólitísk og gefa sérfræðingum á sviðinu meiri ráð og rúm til langtíma skipulags á höfuðborgarsvæðinu í stað þessarar lönguvitleysu sem skammtímastefna stjórnmálamanna er í dag, sem keppast um að klára sem flest mál á sem skemmstum tíma. Endurskoða mætti innri uppbyggingu og stjórnun skipulagsyfirvalda. Að hugsa sér að pólitískt kjörinn einstaklingur, með enga menntun né reynslu á sviði skipulags, eigi að vera yfirstjórnandi skipulags Reykjavíkur! Dæmin sanna sig sjálf, borgarstjóri og formaður skipulagsráðs rembast við sýna sig með lélegri ákvarðanatöku og enn lélegri framkvæmdum eins og Hringbrautarmálið er í heild sinni.

Dæmi um vanhugsun sem þessa er að núverandi borgarstjóri sagði í Kastljósi á dögunum að skipulag í Reykjavík væri ekki ofarlega á forgangslista flokks síns, heldur félagsmálin. Þetta er rangt! Skipulag og félagsmál eiga að vera samsíða enda nátengdir þættir í samfélagi okkar. Þetta eru ekki mál til að forgangsraða og flokka, heldur vinna saman að bættri borg.