Snjallnemar mæla hita og styrk steypu í rauntíma

21. apríl 2021

Vel gengur við uppsteypu í grunni meðferðarkjarnans. Aðalverktaki uppsteypunnar, Eykt, er í samstarfi við Steypustöðina ehf.

„Steypan í undirstöðurnar gengur ljómandi vel. Nú hafa um 1680 rúmmetrar farið í undirstöður frá Steypustöðinni“ segir Kai Westphal framkvæmdastjóri Steypu, framleiðslu og dreifingar hjá Steypustöðinni.

„Það sem er merkilegt við framkvæmdina er að við notum snjallnema frá Giatec sem mælir hita og styrk steypunnar í rauntíma í mannvirkjum. Um 50 þráðlausir nemar eru í miðri steypunni sem fylgist náið með hitaþróun í undirstöðum til að stýra kælingu og koma í veg fyrir sprungumyndun og meta hvenær rétti tíminn er til að slá mótin frá“ segir Kai.

Þetta er eitt af fyrstu skiptum í stórframkvæmd á Íslandi sem notast er við slíka tækni þar sem stuðst er við rauntímaupplýsingar með aðstoð gervigreindar.