SPITAL hópurinn heimsækir framkvæmdasvæði Nýs Landspítala

26. maí 2023

Þann 25.maí kom fríður hópur í heimsókn, SPITAL hópurinn, sem samanstendur af eftirtöldum fyrirtækjum: ASK arkitektar ehf, Bj.Snæ.slf, Efla ehf, Lagnatækni ehf, Kanon arkitektar ehf og Teiknistofan Tröð ehf.

Framkvæmdastjóri NLSH, Gunnar Svavarsson, tók á móti gestum og fór yfir stöðu dagsins í verkefnum félagsins. Að því loknu var framkvæmdasvæðið skoðað þar sem Ásbjörn Jónsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs, fylgdi gestum um svæðið.

Mikil ánægja var með heimsóknina enda margir innan SPITAL hópsins sem hafa komið að verkefninu á einn eða annan hátt.

„Í sumar eru 13 ár liðin frá tilkynningu um að SPITAL-hópurinn hefði unnið samkeppnina um Landspítalann og mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. SPITAL hópurinn hóf vinnu við gerð deiliskipulags og forhönnunar bygginga haustið 2010 og verkinu skiluðum við af okkur um áramótin 2012-2013. Því má segja að SPITAL hópurinn hafi tengst verkefninu allar götur síðan en hönnunarverkefnið “götur, veitur, lóð” er þar viðamest.

Okkur þótti tímabært, nú þegar meðferðarkjarninn er farinn að taka á sig mynd, að hópurinn fengi kynningu á stöðu verkefnisins ásamt stuttri vettvangsferð um byggingastaðinn. Uppbygging svæðisins byggir enn á þeirri hugmynd, sem varð til í okkar hópi við vinnslu samkeppnistillögunnar og þeirri vinnu sem fylgdi í kjölfarið við gerð deiliskipulagsins. Auðvitað hafa nokkrar breytingar verið gerðar á undanförnum árum en skipulagshugmyndin heldur enn, þrátt fyrir að umfang húsa hafi þróast og breyst og Borgarlínan hafði bæst inn í Burknagötuna. Aðrir tóku við forhönnun okkar að húsunum og fróðlegt er fyrir okkur að sjá hvernig hún hefur þróast og breyst í höndum þeirra og notenda Landspítala. Þó meðferðarkjarninn líti talsvert öðruvísi út nú en í okkar forhönnun og innra skipulag hafi breyst talsvert mikið er það þó samt svo að meginuppbyggingin er sú sama og við lögðum upp með í byrjun,” segir Helgi Már Halldórsson hjá ASK artitektum. 

Frett-26.5-spital-innri