„Spítalinn á að vera miðsvæðis og innan um aðra byggð“

12. desember 2012

Umræða um skipulagsmál er föst í nútíðinni og snýst allt of mikið um núverandi ástand umferðar, einkabílinn, bílastæði og mengun. Ferðamáti borgarbúa mun gjörbreytast og horfa verður til framtíðar í skipulagsmálum. Þetta kom fram í erindi Sigurðar Einarssonar arkitekts á samráðsþingi Nýs Landspítala sem haldið var í Hringsalnum á Landspítalanum við Hringbraut í gær. Hann segir að í sínum huga hafi aldrei komið annar staður til greina fyrir nýjar spítalabyggingar en Hringbrautin. Spítalinn eigi að vera miðsvæðis og innan um aðra byggð.

Á þinginu hélt Stefán B. Veturliðason, verkefnisstjóri NLSH, einnig erindi þar sem hann fór yfir nýjar tölur um kostnað við byggingarnar Rúmlega fimmtíu manns mættu á þingið.

Sigurður sagði að í sínum huga hafi aldrei komið annar staður til greina fyrir nýjar spítalabyggingar en Hringbrautin. „Borgin á ekki að vera eins og tré sem vex út í loftið, byggð á að skarast, íbúðabyggð, verslanir, þjónusta, spítali og háskólasvæði þar með talin. Við eigum að forðast að búa til afmörkuð svæði sem eru eins og eyjar í borginni, svæðin eiga að skarast. Ef heimili, vinna og afþreying er allt á sitthvorum staðnum fer maður ekki á milli nema í bíl.“


Aðalatriðið er yfirbragð bygginga ekki stærðin 
Hann sagðist telja góða möguleika á að svæðið með nýbyggingum á Landspítalalóðinni geti orðið huggulegt. 
„Ég tek ekki undir fullyrðingar um að nýju byggingarnar á svæðinu verði of mikill massi, það er yfirbragðið sem skiptir máli en ekki stærðin.“ Ekki sé búið að hanna útlit bygginganna en sá skipulagsrammi sem þegar er tilbúin fyrir svæðið bjóði upp á að það geti orðið skemmtilegt. 
„Yfirbragðið sem þú nærð á byggingarnar er það sem skiptir máli, að þær séu hannaðar með manneskjuna í huga. Það er ekki aðalmálið hvað liggja margir fermetrar á bakvið.“ Hann segir að hægt sé að búa til fallegt útlit á stórar byggingar.  Einnig megi að brjóta þær upp með görðum en með því fáist dagsbirta inn í þær.

Sigurði segist því vera fremur illa við að nota mikið orðið nýtingarhlutfall þar sem hægt sé að vera með mikla nýtingu en opið og uppbrotið yfirbragð.


Flestir sammála um að þétta þurfi byggð 
Í erindi sínu sýndi hann myndir af annars vegar byggingu IKEA í Garðabæ og hins vegar Njarðargötunni en þar sé dæmi um álíka langar byggingar með gjörólíkt útlit. Þá sýndi hann myndir af miðborg Bergen í Noregi sem hann segir dæmi um þétta byggð með mjög flott yfirbragð. Hann nefndi einnig muninn á Barcelona þar sem þéttleiki er 400 íbúðir á hvern hektara og á Íslandi þar sem í þéttasta hverfinu, Þingholtunum, eru 60 íbúðir á hektara. 
Hér á landi hafi verið markmið síðustu ár að þétta byggðina á höfuðborgarsvæðinu og flestir séu sammála um að þess þurfi.

Rafbílar og léttlestarkerfi í náinn framtíð 
Sigurður var nýlega ásamt fleirum þátttakandi í samkeppni um skipulag í úthverfi Bergen og átti hópurinn verðlaunatillöguna. Hann  bendir á að á samkeppnissvæðinu í Bergen sé gert ráð fyrir að þéttleiki byggðar verði um 2,5 en yfirbragðið sé samt sem áður uppbrotið og smágert.

Í Bergen var tekið í notkun árið 2010 svokallað léttlestarkerfi sem hafi reynst mjög vel, notkun hafi aukist mikið og nú þurfi fólk að borga til að fá að keyra á einkabíl inn í miðbæinn í sumum borgum Noregs. „Þarna er um að ræða lestir á brautum sem hafa forgang ef þær skarast við aðra umferð. Lestarstöðvum hefur smám saman fjölgað og uppbygging á sér stað í kringum þær, þannig að fólk á ekki að þurfa að nota einkabíl í sama mæli og áður innan borgarinnar. Ég tel að þetta verði komið hingað fyrr en varir.“

Hann segir að mörg þau bílastæði og bílastæðahús sem nú sé gert ráð fyrir í skipulagi borgarinnar verði líklegast aldrei byggð. „Deiliskipulag er lifandi og það þróast með tímanum og eftir aðstæðum. Þörfin fyrir bílastæði mun minnka. Nú er til dæmis verið að þróa litla rafbíla sem taka sjö sinnum minna pláss en hinn dæmigerði einkabíll gerir nú.“

Áhersla á þéttingu byggðar 
Sigðurður er einn þeirra sem unnið hefur að framgangi verkefnisins Nordic Built sem norræna ráðherranefndin kom á laggirnar til að vinna að umhverfismálum í byggingariðnaði. Hann sótti nýlega umhverfisráðstefnuna GreenBuild í San Francisco þar sem yfir þrjátíu þúsund manns tóku þátt. Þar hafi umræður um sjálfbærni stórra byggðaklasa eins og háskóla og spítala lóða borið hæst og hann hafi tengt þær við umræðuna um nýjar byggingar Landspítala. Öll umræða hafi beinst í eina átt, hvernig megi þétta byggð. 
„Margar hliðar þessa máls voru krufðar og bent á ýmsar leiðir til að gera svæði sjálfbær í meira mæli. Ég tengi þetta við umræðuna um nýjan Landspítala og einkum staðarvalið. Frá mínum bæjardyrum séð hefðu flest þau rök sem ég hef heyrt og lesið gegn staðsetningu við Hringbraut, fallið um sig sjálf í þeirri umræðu sem þarna fór fram.“ 

samradsthHeildarkostnaður 48,5 milljarðar 
Heildarkostnaður við nýbyggingar við Landspítalann verður 48,5 milljarðar, samkvæmt nýjustu kostnaðaráætlun sem miðar við verðlag í október, að því er fram kom í máli Stefáns B. Veturliðasonar verkefnastjóra Nýs Landspítala á samráðsþinginu. 
Gert er ráð fyrir að kostnaður við byggingu aðalbygginganna þriggja, meðferðarkjarna, rannsóknarhúss og sjúkrahótels verði samtals rúmlega 41 milljarður en kostnaður við aðrar byggingar og framkvæmdir eins og bílastæðahús, tæknirými við bílastæðahús, brýr og tengiganga og frágangur við götur veitur og lóð verði 3,1 milljarður. Auk þessa þurfi að gera ráð fyrir öðrum kostnaði eins og kostnaði við forhönnun, rekstur NSLH, aðkeypta ráðgjöf og eftirlit með framkvæmdum en hann sé samtals 4,1 milljarður.

Söluverðmæti húsnæðis sem losnar um 7-12 milljarðar
Stefán nefndi að gert væri ráð fyrir að eldra húsnæði yrði gert upp við en áætlað væri að þær framkvæmdir myndu hefjast í kringum 2018-2020 þegar framkvæmdum við nýbyggingar væri að ljúka. Í upphaflegum áætlunum hefði verið gert ráð fyrir að þær myndu kosta um 11 milljarða en tölur uppfærðar til verðlags í október 2012 hljóðuðu upp á 12,9 milljarða. 

Hann benti einnig á að gera mætti ráð fyrir að söluverðmæti eigna sem lagðar verða af sé um 7-10 milljarðar króna en húsnæði í Fossvogi og Ármúla 1 vegi þar þyngst. Ekki hafi þó verið lagt mat á verðmæti byggingarréttar á lóðunum.


Danskir ráðgjafar rýndu kostnaðartölur 
Kostaðaráætlun var unnin af SPITAL ráðgjöfunum og byggir á forhönnunargögnum sem teljast vera um 20-25% hönnun, að því er fram kom í máli Stefáns.  „Við ákvörðun einingaverðs er tekið mið af reynslutölum úr sambærilegum verkum eins og þess hefur verið kostur og ofan á þær tölur er bætt 15% vegna óvissu á byggingamarkaði og stöðu hönnunar og 10% vegna hönnunarkostnaðar.“ 
Vegna hás flækjustigs í lögnum, loftræsingu og raflögnum meðferðarkjarna og rannsóknarhúsi hefur einnig verið stuðst við reynslutölur úr fjórum nýlegum sjúkrahúsum í Noregi auk kostnaðaráætlunar frá ráðgjafarfyrirtækinu Norconsult í Noregi, að sögn Stefáns. 
Hann benti á að danska fyrirtæki NIRAS og VSÓ ráðgjöf hefði verið falið að rýna kostnaðaráætlun. Rýni NIRAS hafi verið byggð á gerð og yfirferð kostnaðaráætlana vegna byggingar sambærilegra sjúkrahúsa í Danmörku en fyrirtækið hafi verið til ráðgjafar í sex hliðstæðum verkefnum. VSÓ staðfærði kostnaðartölur frá NIRAS miðað við íslenskar forsendur

samradsthÖll gögn tilbúin 
Stefán fór einnig yfir stöðu verkefnisins um nýjan Landspítala en fyrir liggur að samningi við SPITAL hópinn sem unnið hefur að forhönnun, er lokið. „Við erum tilbúin með öll gögn og erum í raun komin eins langt með verkefnið og lög leyfa.  Búið er að ljúka forhönnun meðferðarkjarna, rannsóknarhúss, sjúkrahótels, háskólabygginga, bílastæðahúss og gatna, veita og lóðar.“ 
Þá benti hann á að búið væri að skila gögnum vegna forhönnunar, en þar er um að ræða: teikningar, grunnmyndir, sneiðingar og útlit, sem eru um 20-25% af hönnun, kröfulýsingar, útboðslýsingar, forhönnunarskýrsla, kostnaðaráætlanir og útboðsgögn.