• New national hospital

Staða háskólasjúkrahúss Íslendinga nú og í framtíðinni

14. febrúar 2011

Á undanförnum áratugum hefur orðið gríðarlega mikil framþróun í meðferð og greiningu sjúkdóma og þekkingu fleygt fram með sífellt meiri hraða. Ein helsta skýring þessarar framþróunar er aukin sérhæfing meðal heilbrigðisstarfsmanna, þekking hvers og eins dýpkar en á móti verður breidd þekkingar hvers þeirra minni, með öðrum orðum; menn vita meira og meira um minna og minna. Til að þessi aukna þekking nýtist þarf hópurinn sem starfar saman að stækka í hlutfalli við aukna sérhæfingu. Þetta gildir ekki einungis um heilbrigðisvísindi heldur alla háþróaða starfsemi.

Háskólasjúkrahús þarf að sinna öllum helstu sérgreinum og flestum undirsérgreinum heilbrigðisþjónustunnar, ekki síst í einangruðu landi þar sem íbúafjöldi leyfir ekki nema eitt háskólasjúkrahús um fyrirsjáanlega framtíð. Svarið við þessari þróun er að stækka einingarnar, þjappa saman þekkingu með því að sameina sjúkrahús og fjölga í áhöfninni. Nærtækustu dæmin eru sameining tveggja stærstu sjúkrahúsanna í Stokkhólmi, Huddinge og Karolinska sjúkrahússins, í Ósló þar sem öll sjúkrahúsin hafa verið sameinuð í eitt og í Danmörku þar sem er að hefjast bygging eins stærsta sjúkrahúss í Evrópu, Skæby sjúkrahúss skammt frá Árósum. Þessar þjóðir telja sig ekki hafa efni á að dreifa þekkingunni eða vannýta rándýr en nauðsynleg tæki heilbrigðisþjónustunnar.

Sameining sjúkrahúsa í Reykjavík
Í byrjun tíunda áratugarins hófst sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík sem þá voru þrjú. Í fyrstu var höfuðáherslan lögð á fjárhagslegan ávinning af sameiningunni sem sannanlega hefur tekist að hluta þrátt fyrir að ekki hafi náðst það meginmarkmið að koma henni undir eitt þak sem er megin forsenda hagræðingar. Hin faglegu rök sem vísað er til hér að framan eru auk þess sífellt sterkari og augljósari. Þrátt fyrir sameiningu sjúkrahúsanna þriggja er Landspítali langminnsta háskólasjúkrahúsið á Norðurlöndum. Um þessa sameiningu náðist sæmilega góð sátt meðal fagfólks á þeirri forsendu að byggt yrði nútímalegt háskólasjúkrahús sem stæði undir nafni sem slíkt þar sem rannsóknar- og kennsluaðstaða væri samtvinnuð heilbrigðisvísindadeildum Háskólans. Fyrst og fremst væri þó um að ræða spítala þar sem sjúklingum yrði búin aðstaða sem byggð er á gagnreyndri þekkingu á hönnun sjúkrahúsa, þar sem umhverfið leyfir að lögleg réttindi sjúklinga séu virt og stuðli að öryggi þeirra og vellíðan.

Húsakostur LSH
Athygli fræðimanna meðal arkitekta og heilbrigðisstarfsmanna hefur á síðari árum beinst að sambandinu milli hönnunar sjúkrahúsa og meðferðarárangurs. Ljóst er af þeim rannsóknum að með nútíma hönnun sjúkrahúsa er hægt að auka skilvirkni þjónustunnar og gera hana öruggari, draga mjög úr meðferðarmistökum ýmiss konar, sem og spítalasýkingum. Starfsemi Landspítala er í dag á 17 mismunandi stöðum í nærri 100 mismunandi húsum! Um 80% húsnæðis spítalans er hannað fyrir meira en hálfri öld, fyrir sjúkrahússtarfssemi sem var allt annars eðlis en nú er, og sum fyrir önnur not en heilbrigðisþjónustu. Liggur í augum uppi hversu umhendis og dýr rekstur er við þessar aðstæður en færri gera sér grein fyrir því að í þessu er fólgin umtalsverð áhætta fyrir sjúklinga, einkum þá sem eru með margslungin vandamál. Sveigjanleiki er lykilorð við hönnun nútíma sjúkrahúsa, sem þýðir að auðvelt er að breyta húsnæðinu til að aðlaga það breyttum þörfum. Þessu gamla, tvístraða húsnæði verður ekki breytt til samræmis kröfum nútímans um aðbúnað sjúklinga og vinnuaðstöðu starfsmanna eða að rökréttu samhengi starfseminnar. Breytingar og endurnýjun sem sífellt þarf að gera í gömlu húsnæði eru dýrar, eða allt að 50% af nýbyggingarvirði og verða samt aldrei „barn í brók“.

Hægt að ná fram umtalsverðum sparnaði
Það kemur því ekki á óvart að norsku ráðgjafafyrirtækin Momentum arkitekter og Hospitalitet hafi komist að þeirri niðurstöðu, þegar til þeirra var leitað um ráð í ársbyrjun 2008, að ekki væri valkostur að halda að sér höndum um nýbyggingu spítalans, sú leið væri dýrari en að hefjast handa. Skattgreiðendur sætu með því móti uppi með hærri reikning en aðrir kostir bjóða upp á og sjúklingar og starfsfólk með alls ófullnægjandi húsnæðisaðstæður.

Lögðu þeir til að byggt yrði nýtt svo sameina mætti starfsemi sem nú er í Fossvogi, Ármúla, hluta af starfseminni á Tunguhálsi og mest tæknikrefjandi hluta starfseminnar við Hringbraut í nýbyggingu á lóð spítalans. Þessi bygging skyldi hýsa gjörgæslu, skurðstofur, myndgreiningu, alla bráðamóttöku sem nú er á fimm stöðum, sjúkrahúsapótek, dauðhreinsun o.fl. Einnig að rannsóknarstofur spítalans skyldu sameinaðar í nýtt húsnæði, byggja legudeildir fyrir 180 sjúklinga og sjúkrahótel á lóðinni. Með þessu væri öll bráðastarfsemi sjúkrahússins komin á einn stað. Hönnun ætti að gera ráð fyrir síðari áföngum sem stefndu að heildaruppbyggingu spítalans á Hringbrautarlóðinni. Um þá lóð hefur ríkið, fyrir hönd spítalans og Háskóla Íslands, gert samning við Reykjavíkurborg um að sú lóð verði til framtíðaruppbyggingar þessara stofnana.

Með þeim áfanga sem nú er í undirbúningi er áætlað að um 6% árlegur rekstrarsparnaður náist. Er það samkvæmt útreikningum hagdeildar spítalans sem yfirfarnir hafa verið og staðfestir af hinum norsku ráðgjöfum. Ávinningur af því að sameina rekstur Landspítala eins og lagt er til er metinn á 19 milljarða króna á núvirði til næstu 40 ára. Skýrsla norðmannanna og útreikningar eru opnir til skoðunar á vefnum www.nyrlandspitali.is.

Mannauður heilbrigðiskerfisins
Í ræðu og riti um þessa fyrirhuguðu framkvæmd hafa komið fram áhyggjur af því að atgerfisflótti heilbrigðisstarfsmanna úr landi sé svo mikill að ekki verði þörf á svona byggingu.

Úrbætur í húsnæðismálum spítalans eru fyrst og fremst í þágu sjúklinganna. Ákvörðun heilbrigðisstarfsmanna um að flytja heim að framhaldsnámi loknu byggist ekki eingöngu á launakjörum. Sannarlega hafa þau hrapað miðað við mörg önnur lönd, mest sökum gengisbreytinga. Aðrir þættir sem áhrif hafa eru hvort starfsaðstaða er sambærileg þeirri sem þeim býðst erlendis bæði til að þjónusta sjúklinga og stunda sín fræði með svipuðum hætti og þeim stendur til boða erlendis. Tilurð nútímalegs háskólaspítala er ekki síður mikilvægur þáttur í að fá besta fólkið heim. Tal um fyrirsjáanlegt mannauðstóm á nýjum spítala gæti hinsvegar haft neikvæð áhrif á heimfýsi sérmenntaðs fólks.

Ávinningur, fyrir hverja helst?

  • Fyrir heilbrigðiskerfi Íslendinga í heild. Fyrir sjúklinga og starfsfólk er bygging nútímalegs sjúkrahúss löngu orðin brýn nauðsyn.

  • Fyrir ríkissjóð vegna lægri rekstrakostnaðar Landspítala sem nemur 6% af árlegri veltu. Innlendur hluti framkvæmdakostnaðar verður allt að 75% byggingarkostnaðar. Fjárfesting í landinu er í lámarki nú um stundir. Það munar um þessa til að auka hagvöxt þó að heildar byggingarkostnaður sé ekki nema u.þ.b. eins og hálfs árs rekstrarkostnaður spítalans.

  • Fyrir lífeyrissjóðina þar sem um örugga langtímaávöxtun fjármuna er að ræða en fjárfestingarkostir þeirra eru fáir um þessar mundir. Fyrsta kostnaðaráætlun byggingarinnar sem gerð var í árslok 2009 gerði ráð fyrir 51 milljarði króna sem dreifist á 5-6 ár en það er um 10% fjárfestingarþarfar lífeyrissjóðanna á tímabilinu.

  • Fyrir íslenska hönnuði því á þeirra vinnumarkaði eru önnur verk fá og smá.

  • Fyrir byggingariðnaðinn er um stórverkefni að ræða sem hafist getur í árslok 2011.

Staða verkefnisins
Nú vinnur 40-50 manna hópur arkitekta, verkfræðinga og starfsmanna spítalans að forhönnun verkefnisins auk erlendra sérfræðinga sem leitað er til eftir þörfum. Hönnunarvinna er því sem næst á áætlun. Komi ekki til óvænt atvik sem tefja deiliskipulagsferlið og Alþingi leggur blessun sína yfir lokaáætlanir um kostnað og fjármögnun verksins er hugsanlegt að fyrstu framkvæmdir hefjist í lok þessa árs. Þá hefði þjóðin ríka ástæðu til að fagna upphafi að mjög brýnni framkvæmd í þágu þjóðarinnar allrar.