• New national hospital

Staðreyndir um nýjan Landspítala

21. janúar 2012

Formaður nýs stjórnmálaafls Hægri grænna tjáir sig um nýja Landspítalann í Mbl. 14.jan. sl. og hallar réttu máli í flestum atriðum. Rétt er að upplýsa lesendur um staðreyndir þess helsta sem misfarið er með í grein formannsins.

Í upphafi vísar greinarhöfundur til viðhorfskönnunar á vegum Læknafélags Reykjavíkur þar sem fram komi að 67% þjóðarinnar séu andvíg staðsetningu nýs Landspítala við Hringbraut. Hið rétta er að það voru 47,6%. Í könnuninni var ekki boðið upp á annan valkost. Ef byggja ætti upp sameinaðan spítala frá grunni á nýjum stað er kostnaður margfaldur. Verður slíkur spítali ekki tekinn í not fyrr en allt er fullbyggt. 

  • Ekki eru til peningar segir formaðurinn. Staðreyndin er að lífeyrissjóðir landsins hafa lýst yfir vilja til að lána til framkvæmdarinnar og ávaxta þannig með öruggum hætti fé sjóðsfélaga. Ef til vill bjóðast hagstæðari kjör hjá öðrum.

  • Formaðurinn segir byggingar of stórar. Staðreynd málsins er að svæðið neðan Gömlu Hringbrautar hefur verið frátekið fyrir uppbyggingu Landspítala samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur í áratugi. Um vinningstillögu í alþjóðlegri hönnunarsamkeppni um frumhönnun segir dómnefnd: „Tillagan er byggð á sterkri hugmynd um bæjarhverfi með götum og húsum sem hluta borgarmyndarinnar.......“. Stærðir byggingareita eru svipaðar og gert er ráð fyrir í Vatnsmýrarskipulaginu, sem yrði beint framhald byggðar til suðurs frá Landspítala. Hæð húsa er sú sama og við þekkjum frá húsunum umhverfis Austurvöll. Byggingarhlutfall lóðarinnar sem nú er skipulögð er 1.6 sem er lágt fyrir miðja borg.“

  • Fullyrðing formannsins um að byggingarkostnaður „verði 100 milljarðar, eflaust mun meiri“ er röng. Fjárfesting í nýju húsnæði spítalans er nú metin á 40 - 45 milljarða kr. Endurnýjun tækjabúnaðar næstu 10 árin er óumflýjanlega óháð húsnæðislausnum.

  • Vantar 3.000 bílastæði segir formaðurinn. Áætluð bílastæðaþörf er um 2.000 stæði sem er svipað og nú þjónar þeim hluta spítalans sem sameinaður verður á lóðinni.

  • Formaðurinn segir að 5.500 manns muni starfa á nýja spítalanum. Reyndar verður hann um 4.500 manna. Mikilvægt er að hafa í huga að starfsmenn dreifast á vaktir allan sólarhringinn. Á morgunvakt á virkum degi eru um 1.800 manns í vinnu á sama tíma. Þetta er mesti fjöldi sem er við vinnu samtímis.

  • Ræddar eru hjólreiðar starfsmanna og sjúklinga til aðgerða. Að sjúklingum sé ætlað hjóla í aðgerð er barnalegur útúrsnúningur formannsins. Samgöngustefna spítalans og borgarinnar er að auka hlutdeild hjólandi og gangandi. Á það að sjálfsögðu fyrst og fremst við starfsmenn og fjarri sanni að einhver hafi talað um að einkabílar hverfi.

  • Formaðurinn segir að nýbyggingar verði 166 þús. m². Byggingarmagn sem ákveðið hefur verið að reisa er um 75 þús. m² sjúkrahúsbyggingar og 9 þús. m² bygging fyrir heilbrigðisvísindasvið Háskólans.

  • Staðhæfing formannsins um að dýrara sé að mennta og þjálfa lækna hérlendis er fullyrðing sem varla stenst. Með sameiningu spítalanna í Reykjavík skapaðist grundvöllur fyrir háskólasjúkrahús bæði hvað fjölda og fjölbreytileika sjúkdómstilfella varðar. Í undirsérgreinum og minni sérgreinum munu íslenskir læknar þurfa að sækja sér menntun utanlands um langa framtíð. Fyrstu 1-3 ár sérfræðimenntunar í helstu sérgreinum eru viðurkennd og fullgild og í einstöku greinum að fullu. Mikil blóðtaka er fyrir þjóðina að missa úr landi alla þá lækna sem hver um sig dvelur erlendis 5–10 ár og fjórðungur þeirra skilar sér ekki til landsins aftur. Þó Háskóli Íslands sé ekki stór á mælikvarða heimsins er hann engu að síður í hópi 300 bestu háskóla heims. Eiga heilbrigðisvísindi þar ríkan þátt.

  • Formaðurinn segir að ekki séu til peningar til að kaupa ný tæki. Hér skal nefnt að engu breytir um þessi mál hvort eða hvar spítalinn verður byggður. Tæki sem úreldast þarf hvort sem er að endurnýja. Staðreyndin er að sameinaður spítali á einum stað í nýrri byggingu verður ódýrari í rekstri.

  • Að lokum skal bent á að nýr spítali er hannaður sérstaklega með varnir gegn sýkingum í huga. Einbýli með salerni fyrir hvern sjúkling vega þyngst svo og sérhönnuð smitsjúkdómadeild þar sem allar stofur eru einangrunarstofur samkvæmt viðurkenndum stöðlum. Almenn loftræsting í byggingunni samkvæmt kröfum tímans er þriðja atriðið.

Spítalinn er mál allra landsmanna og lausn húsnæðismála hans er orðin mjög knýjandi. Stærstur hluti þeirra sem þjónustu hans þarfnast er fólk sem komið er yfir sextugt. Hlutdeild aldraðra í heildarmannfjölda þjóðarinnar mun aukast um 40% fram til ársins 2025 og um 60% árið 2030. Flóðbylgjan er komin að ströndinni, engan tíma má missa.