• New national hospital

Staðsetning háskólasjúkrahúss

2. júlí 2015

Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir Guðmund Þorgeirsson yfirlækni á Landspítalanum. Guðmundur fjallar meðal annars um helstu rök fyrir þvi að Hringbraut varð fyrir valinu sem besti kosturinn fyrir nýjan Landspítala. Helstu rökin séu m.a. þau að nýtanlegt byggingarmagn sé mest á Hringbrautarlóðinni og því ódýrast að byggja við Hringbraut.

Guðmundur ítrekar einnig mikilvægi þess að nýr Landspítali verði í nálægð við háskólasamfélagið og akademiska starfsemi, ekki síst með tilliti til þjónustu gagnvart sjúklingum og að Hringbrautarlóðin sé ákjósanleg með tilliti til umferðar og borgarskipulags.

„Landspítalinn gegnir óumdeildu lykilhlutverki í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Því betri tengsl og því nánari samvinna sem næst við aðrar stofnanir heilbrigðisþjónustunnar, heilsugæsluna, sérfræðiþjónustu utan spítala og önnur sjúkrahús, þeim mun öflugra er allt heilbrigðiskerfið. Landspítalinn hefur einnig þróast farsællega sem háskólaspítali og mikilvægur hluti af öflugum rannsóknarháskóla sem á í gjöfulu samstarfi við aðrar rannsóknarstofnanir. Eftir langan meðgöngutíma er runninn upp tími lokahönnunar og framkvæmda og nú hillir undir nýjan og stórbættan húsakost Landspítala við Hringbraut. Með nýjum byggingum mun Landspítalinn eflast á öllum þeim mikilvægu sviðum sem lúta að öflun og miðlun þekkingar í heilbrigðisvísindum og hagnýtingu hennar í þágu heilbrigðis í landinu“ segir Guðmundur að lokum.