• New national hospital

Stærri Landspítali í þágu sjúklinga

1. mars 2012

Markmið með uppbyggingu Landspítala við Hringbraut sem fyrirhuguð er snýst og mun ávallt snúast fyrst og fremst um sjúklinga landsins. Þetta vill gleymast í umræðu um stækkun spítalans, en löngu tímabært er að ráðast í hana.Hagur sjúklinga til framtíðar verður best tryggður með margs konar framförum sem hljótast af stækkun spítalans.

Ávinningur sjúklinga af bættri aðstöðu fyrir spítalastarfsemina er augljós. Landspítali starfar nú á 17 stöðum í um 100 húsum og sex heilbrigðisdeildir háskólans starfa á 13 stöðum, allt frá Hofsvallagötu að Eirbergi á Landspítalalóð. Húsnæði spítalans er margt gamalt og úr sér gengið. Meginstarfsemin er einkum í tveimur húsum og mikið óhagræði af flutningum veiks fólks á milli. Þá deila flestir sjúklingar sjúkrastofum með allt að þremur öðrum einstaklingum. Enginn þarf að efast um hversu óþægilegt getur verið við slíkar aðstæður að ræða meðferð og líðan við lækna, hjúkrunarfræðinga og annað starfsfólk, eða þá ættingja og vini.

Endurteknar spítalasýkingar hafa verið verulegt vandamál sem stundum hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. Ein af ástæðum þess er fjölbýlin. Hvers virði er fyrir veikt fólk að losna við allt þetta?

En stækkun Landspítala mun líka hafa í för með sér ýmsan annan ávinning fyrir sjúklinga en þann sem lýtur beint að spítalastarfsemi.

Samstarf lykilatriði
Kjörorð nútíma heilbrigðisþjónustu eru teymi og samstarf - tíma einyrkja er liðinn. Mikilvægt er að samstarfið hefjist strax á fyrsta ári í skóla. Skilyrði þess er að koma nemendum heilbrigðisdeilda saman undir eitt þak. Fólk þarf að koma saman og vinna saman að rannsóknum, kennslu og þjónustu.

Þá má minna á að tæki eru dýr. Samnýting rannsóknastofa, tækjabúnaðar og starfsfólks býður ekki aðeins upp á fjárhagslega hagræðingu heldur einnig mikil fagleg tækifæri. Nýlega var stofnað Lífvísindasetur Háskóla Íslands. Það er samstarfsvettvangur allra þeirra sem sinna grunnrannsóknum í líf- og heilbrigðisvísindum. Í nýju húsi kæmist öll starfsemi því tengd undir eitt þak. Nálægð bóklegs náms og grunnrannsókna við rannsóknir og nám á sjúkradeildum efla starfsþjálfun nemanna og gera þá enn hæfari til að sinna og mæta þeim miklu breytingum sem verða munu í fagi þeirra á næstu árum og áratugum. Það eru hagsmunir þeirra sem fá þjónustu á helsta spítala landsins að þar sé vel búið um alla hnúta.

Nálægð við háskólann mikilvæg
Þau atriði sem að ofan eru rakin vega þungt í umræðu um stækkun Landspítala. Nokkru púðri hefur þó undanfarið verið eytt í staðsetningu nýs spítala. Hér er rétt að minna á að áformin um uppbyggingu spítalans eiga sér langa sögu. Rúm fimmtán ár eru liðin frá því að umræðan um þau hófst fyrir alvöru í aðdraganda sameiningar sjúkrahúsanna í Reykjavík. Sjúkrahúsin voru sameinuð um mitt ár 2000 og tveimur árum síðar var byggingunni valinn staður á Grænuborgartúni, á lóð Landspítala við Hringbraut.

Hér vógu tvær ástæður þyngst. Sú fyrri felur í sér bættan hag sjúklinga með uppbyggingu spítalans í námunda við háskólann. Það mun gera spítalanum kleift að eflast sem háskólasjúkrahús með því að blanda saman starfsemi sinni enn frekar, styrkja samstarf og samvinnu til að efla þjónustu, rannsóknir og kennslu.

Hin ástæða staðarvalsins er sú að á lóðinni við Hringbraut er mun meira af byggingum sem nýta má áfram en hefði nýju húsi verið komið fyrir annars staðar. Bygging við Hringbraut er því ódýrari en bygging á öllum öðrum stöðum sem nefndir hafa verið. Það væri skrýtið ef það þætti ekki skipta máli.

Ekki verður nógsamlega undirstrikað að hagur sjúklinga er hafður að leiðarljósi hjá öllu því fólki sem nú talar fyrir mikilvægi þess að strax verði hafist handa við að stækka Landspítala og búa hann undir að gegna verðugu hlutverki í heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar á Íslandi. Á sjúklingum er því miður er enginn hörgull og verður ekki. Þeirra vegna er brýnt að hefjast handa.