Starfsmenn framkvæmdasviðs NLSH taka í notkun nýja stafræna tækni

12. janúar 2021

Nú þegar styttist í upphaf uppsteypu á nýjum meðferðarkjarna hafa starfsmenn NLSH tekið í notkun nýjan stafrænan búnað, svokallaðan viðbættan veruleika (e. Augmented Reality). Um er að ræða búnað til að skoða á verkstað stafræn BIM líkön af viðkomandi mannvirkjum áður en þau eru byggð.Þannig er hægt að staðsetja einstaka byggingarhluta og mannvirkið í heild og sjá hvernig það kemur til með að líta út áður en það er byggt.

„Þessa dagana erum við að undirbúa framkvæmdina á verkstað. Við erum aðallega að skoða undirstöður og fyrstu hæðir meðferðarkjarnans sem og sökkulskaut og lagnir í grunni. Þessi nýja tækni auðveldar okkur verulega að sjá heildarmyndina og innbyrðis afstöðu einstakra mannvirkjahluta áður en framkvæmdir hefjast og eins meðan á þeim stendur.

Stefnt er að nýta þessa tækni við allar framkvæmdir á vegum NLSH“, segir Eysteinn Einarsson staðarverkfræðingur NLSH