Starfsmenn Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands í heimsókn

19. janúar 2023

Hópur starfsfólks úr stjórnsýslu Heilbrigðisvísindasviðs HÍ kom í heimsókn í dag og kynnti sér framkvæmdir á svæðinu og áætlanir undir góðri leiðsögn Gísla Georgssonar verkefnastjóra á tækni- og þróunarsviði Nýs Landspítala.

„Þarna sáum við heildarmyndina í enn betra samhengi en við náum að sjá út um skrifstofugluggann. Við vorum kynnt fyrir öllu hönnunarferlinu, hvað þarf til þess að þetta gangi upp, tímalínur, vonir og væntingar. Það eina sem í raun upp á vantar núna, eins og oft áður, er fleira heilbrigðisstarfsfólk til að fylla þarna allar skurðstofur og meðferðarrými, sem okkar fólk er sjálft að hamast við að mennta alla daga. Þá myndi hjálpa ef framkvæmdir við nýtt húsnæði Heilbrigðisvísindasviðs kæmust einnig á gott skrið sem fyrst svo þetta haldist allt í hendur, Íslendingum öllum til bættrar heilsu og betra lífs,“ segir Sigfús Örn Guðmundsson, markaðs- og kynningarstjóri Heilbrigðisvísindasviðs sem var á meðal gesta dagsins.