Allt að verða tilbúið undir malbikun á vinnubúðareit

4. nóvember 2020

Jarðvegsframkvæmdir á vinnubúðareit ganga vel en Snókur verktakar hafa umsjón með jarðvinnunni.

„Þetta verk sem við erum að vinna núna er sjálfstætt verkefni, erum að gera vinnubúðarplan fyrir framtíðarvinnubúðir, fyrir verktaka, hönnuði, verkkaupa, efnislager og fyrir sameiginlegt mötuneyti.

Verkið hefur tekið um einn og hálfan mánuð og þetta hefur gengið vel og viðrað vel. Við þekkjum svæðið enda búnir að vera hér frá 2018, vorum við með jarðvinnuþáttinn í grunni meðferðarkjarnans sem undirverktaki ÍAV.

Við munum fullklára hér eftir um tvær til þrjár vikur en þá tekur við annað verkefni við að aðstoða Terra, sem mun setja upp vinnubúðirnar, með jarðvegsþáttinn.

Við hefjumst handa við malbikun hér á svæðinu eftir helgina og svo eigum við vinnu eftir við Vatnsmýrarveg við að setja niður safntank og svo í lokin verða settar upp girðingar hér í kring þegar búið verður að reisa vinnubúðirnar.

Í dag erum við að jafna undir efra undirlag og að klára götuna í rétta hæð og á morgun þá er eftir að hækka brunna og niðurföll og síðan verður malbikað á mánudag”, segir Sigurður Arnar Sigurðsson verkefnastjóri hjá Snókur verktökum.