Sýkingavörnum verða gerð góð skil í nýjum Landspítala

27. nóvember 2020

Í nýjum meðferðarkjarna (nýju sjúkrahúsi) verður lögð mikil áhersla á sýkingavarnir og ekki síst með tilliti til þess veirufaraldurs sem dunið hefur yfir á þessu ári.

Ásdís Ingþórsdóttir, verkefnastjóri hjá NLSH, segir að í nýjum meðferðarkjarna, sem verður um 70 þúsund fermetra bygging, verði sýkingavörnum gerð ítarleg skil.

Allar sjúkrastofur á legudeildum verða einstaklingsstofur með sér baðherbergi. Alls um 192 stofur.

  • Sérstök smitsjúkdómadeild verður einnig  fyrir 20 sjúklinga.
  • Sérstök eining HLIU (high level isolation unit), sem er hluti af smitsjúkdómadeild var upphaflega hugsuð fyrir alvarlegan veirufaraldur eins og Ebólu en mundi allt eins nýtast fyrir Covid19 sjúklinga sem þurfa sérhæfða einangrun. Þessi hluti smitsjúkdómadeildarinnar er hönnuð fyrir alvarlegan farsóttafaraldur þar sem smit eru loftborin sem er ekki raunin með Covid-19. Inn á þá einingu verður hægt að koma með sjúklinga utan frá og beint inn á stofur sem eru með sex legurými og öll tæknikerfi eru sér svo sem loftræsing og frárennsli. Svona sérhæfð eining er ekki til á landinu í dag.
  • Skurðstofur, undirbúningur og vöknum eru öll með sérstök einangrunarrými þannig að hægt er að sinna aðgerðum á sjúklingum sem eru í smitgátt.
  • Skurðstofur, vöknun og gjörgæsla eru hönnuð þannig að hægt verður að skipta þeim upp í sóttvarnarhólf, sé þess þörf, vegna sýkinga eða tjóns eða sem varúðarráðstöfun. Gert er ráð fyrir sóttvarnarhólfum í allri tæknihönnun og í loftræsikerfum spítalans.
  • Á bráðamóttöku verður gert ráð fyrir beinu aðgengi inn á einangrunarstofu og hægt að aðskilja móttöku t.d. fyrir Covid sjúklinga.
  • Hönnun hússins er sveigjanleg sem þýðir að hægt verður að breyta einstaka rýmum og aðlaga húsnæðið breytingum á meðferðarúrræðum hverju sinni.
  • Sérstakt tillit verður tekið til sýkingavarna við efnisval þar sem mjög há krafa verður gerð um þol efna vegna þrifa með sterkum efnum.

Unnið er að fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans og áætlað er að henni ljúki vorið 2021.

„Þessi vinna við hönnun hefur gengið vel og fjölmargir aðilar komið að hönnun hússins og ekki síst notendur þ.e. starfsfólk Landspítala. Ég er þess fullviss að meðferðarkjarninn muni standast allar þær kröfur sem gerðar eru til nýrra sjúkrahúsa og ekki síst með tilliti til sýkingavarna og þess faraldurs sem nú herjar á heiminn. Sú grunnhugsun í hönnun sem lagt var af stað með 2010 er enn í fullu gildi en er einnig í stöðugri endurskoðun og rýni. Meðferðarúrræði eru alltaf að þróast og sveigjanleiki í hönnun gerir okkur kleift að gera ráð fyrir breytingum inn í framtíðina,“ segir Ásdís Ingþórsdóttir.