Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar kynnir sér verkefnið við Hringbraut

22. febrúar 2023

Nýlega var haldinn kynningarfundur fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar af hálfu NLSH ohf. þar sem Gunnar Svavarsson og Sigríður Sigurðardóttir fóru yfir verkefni félagsins við Hringbraut og víðar á höfuðborgarsvæðinu s.s. nýbygginguna við Grensás. Fulltrúar ráðsins spurðu margs og var umræðusviðið víðfemt. NLSH hefur á umliðnum árum reglulega haldið kynningar fyrir Reykjavíkurborg en skipulags- og byggingaryfirvöld í Reykjavík eru einn af helstu samstarfsaðilum NLSH í uppbyggingunni við Hringbraut. Góður rómur var gerður af kynningunni frá öllum aðilum ráðsins og þótti ráðsmönnum verkefnið svo sannarlega vera á fullri ferð.

Í ráðinu eiga nú sæti: Alexandra Briem formaður, Hjálmar Sveinsson, Pawel Bartoszek, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Líf Magneudóttir, Hildur Björnsdóttir og Kjartan Magnússon.

Áheyrnarfulltrúar eru: Kolbrún Baldursdóttir og Trausti Breiðfjörð Magnússon.

Á fundinum sátu einnig starfsmenn umhverfis- og skipulagssviðs sem gegnir fjölþættu hlutverki, allt frá því að vinna með kjörnum fulltrúum að stefnumótun í umhverfis-, skipulags- og samgöngumálum til þess að samþykkja teikningar og tryggja eftirlit í heilbrigðismálum. Að auki stýrir sviðið framkvæmdum og viðhaldi og sinnir almennum rekstri í borgarlandinu eins og garðyrkju og grasslætti, snjómokstri og hreinsun.