Undirskrift samnings og fyrsta skóflustunga að sjúkrahóteli

11. nóvember 2015

Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, skrifaði í dag undir samning við byggingarfyrirtækið LNS Saga ehf. um byggingu sjúkrahótels. Samningurinn er milli Nýs Landspítala ohf. og LNS Saga ehf.


Meðal fjölmargra viðstaddra voru meðal annars nemendur frá heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands sem vottuðu samninginn.


Sjúkrahótelið er hluti af fyrsta áfanga uppbyggingar Nýs Landspítala við Hringbraut. Það rís á norðurhluta lóðar spítalans milli kvennadeildar, K-byggingar og Barónsstígs og verður tekið í notkun árið 2017. Í sjúkrahótelinu verða 75 herbergi og með tilkomu þess breytist aðstaða fyrir sjúklinga og aðstandendur mikið til batnaðar.


Heilbrigðisráðherra tók fyrstu skóflustunguna að sjúkrahótelinu. Með honum voru m.a. fyrrverandi heilbrigðisráðherrar auk starfsmanna Landspítala, annarra velunnara hans og áhugafólks um uppbyggingu þjóðarsjúkrahússins við Hringbraut.


Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra: "Þetta er ánægjulegur dagur sem markar ákveðin tímamót. Nýtt sjúkrahótel mun bæta þjónustu við sjúklinga og aðstandendur þeirra strax og það er risið. Mestu skiptir þó sú staðreynd að með þessum fyrsta áfanga eru verklegar framkvæmdir við uppbyggingu þjóðarsjúkrahúss hafnar."


Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala sagði að dagurinn í dag markaði upphaf uppbyggingar nýs Landspítala.


Samninginn undirrituðu Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Ásgeir Loftsson frá LNS Saga.


Ásgeir Loftsson framkvæmdastjóri sagði að þetta sé spennandi verkefni og að fyrirtækið sé vel í stakk búið að takast á við þetta verkefni.


Framkvæmdir munu hefjast fljótlega á lóð Landspítala. Í fyrstu er um að ræða gerð bráðabirgðabílastæða á svæðinu sunnan við aðalbyggingu Landspítala sem koma í stað annarra stæða sem verður lokað tímabundið þegar framkvæmdir hefjast við byggingu sjúkrahótelsins. Þessari framkvæmd verður lokið um miðjan desember.

Frétt á ruv.is


Nánari upplýsingar.


Aðalhönnuður sjúkrahótelsins er KOAN-hópurinn en forhönnun, skipulagsgerð, hönnun gatna og lóðar er unnin af Spitalhópnum. Húsið verður prýtt með steinklæðningum, listaverki eftir Finnboga Pétursson myndlistarmanni.
Sjúkrahótelið verður fjórar hæðir og kjallari. Byggingin er 4.258 fermetrar að stærð (brúttó), 14.780 rúmmetrar (brúttó) með kjallara og tengigöngum. Hótelið mun tengjast barnaspítala og kvennadeild um tengigang. Samningsfjárhæð er samkvæmt tilboði verktaka og samkvæmt ákvæðum útboðsgagna, kr. 1.833.863.753,- með vsk.