Útboðsmál á döfinni hjá NLSH

30. maí 2023

Eftir því sem framkvæmdaverkefnum vindur fram þá fjölgar þeim innkaupaverkefnum sem unnið er að hjá NLSH.

Á utbodsvefur.is er nú að finna tvenn útboð þar sem skilafrestur er að renna út. Þar er NLSH annars vegar að auglýsa forval um einingalausnir í meðferðarkjarna og rannsóknahús og hins vegar er óskað eftir tilboðum í margvíslega sérfræðiþjónustu.

Í einingalausnum er hluti af textanum þessi: “Rikiskaup invites interested candidates to take part in a pre-qualification process (PQP) for The New National Hospital regarding the purchase of a hospital modular room system (MRS) in facilities in the new hospital buildings.” Um er að ræða forval á lausnum sem skapa umgjörð um sérhæfða starfsemi s.s. skurðstofur þar gerðar eru ríkar kröfur um m.a. yfirborðsefni, frágang og þéttleika rýma.

Varðandi útboð á sérfræðiþjónustu- og ráðgjöf eru sautján flokkar auglýstir. Geta bjóðendur að lágmarki gefið tilboð í sex flokka. Um getur verið að ræða bein innkaup eða örútboð að uppfylltum skilyrðum. Þessi liður varðar allar byggingar þar sem NLSH kemur að.

„Auk framangreindra útboða vinnur NLSH að fjölda útboðspakka sem gert er ráð fyrir að auglýsa innan tíðar þegar vinnu við þá lýkur og tilheyrandi formskilyrði hvers útboðs hafa verið uppfyllt. Má hér nefna: Vörulyftur fyrir framkvæmdatíma, ílögn og rykbindingu í meðferðarkjarna og tengiganga, vinnurafmagn í meðferðarkjarna og brunamálun stálvirkis meðferðarkjarna, jarðvinnu fyrir hús Heilbrigðisvísindasviðs og einnig jarðvinnu og uppsteypu Rannsóknarhúss“ segir Jónas Jónatansson, teymisstjóri áætlana og innkaupa hjá NLSH.

Framangreind upptalning er alls ekki tæmandi. Á næstu misserum munu síðan fjöldi annarra útboða bætast við og verða auglýst. Nánari fréttir verða birtar um þetta á vef NLSH.