• New national hospital

Vafasamar ákvarðanir

2. apríl 2006

Á síðastliðnu ári sat ég ráðstefnu á vegum Unesco í Vínarborg þar sem fjallað var sérstaklega um hönnun nýbygginga í sögulegu umhverfi. Ýmsar athyglisverðar skoðanir voru viðraðar, þ.ám. var því algjörlega hafnað að byggja háhýsi í eldri borgarhlutum. Þétting byggðar skyldi taka mið af þeirri byggð sem fyrir væri, bæði hvað varðar húsahæðir og mælikvarða. Ekki skyldi leggja hraðbrautir í gegnum borgarmiðjur heldur lögð áhersla á breiðstræti sem reynst hafa vel í mörgum evrópskum stórborgum.

Ein af niðurstöðum ráðstefnunnar vakti sérstaka athygli mína, en hún varðaði kjark, þor og vilja til að hætta við eða endurskoða framkvæmdir sem þegar höfðu verið ákvarðaðar en orkuðu tvímælis. Ef uppi væru verulegar efasemdir studdar rökum eða jafnvel fullvissa um að í vændum væru mistök bæri að slá slíkum ákvörðunum á frest eða jafnvel hætta við þær.

Í því tilviki skipti ekki máli hvað liði undirbúningi; réttara og ódýrara væri að staldra við, a.m.k. í bili.

Því er þetta sett hér á blað vegna þess að nýlega höfum við horft upp á ein verstu mistök í skipulagsmálum sem gerð hafa verið í Reykjavík, og er þó af nógu að taka, en það er færsla Hringbrautar. Þvílík sóun á landrými hefur vart sézt í þéttbýli. Hvar er draumurinn um stækkun miðborgar í suðurátt út í Vatnsmýri? Hvernig eiga endurnar að komast yfir með ungana? Hvaða umferðarvandamál voru leyst? Sjálf framkvæmdin með tilliti til umferðartækni virðist meira að segja meingölluð með alltof mörgum umferðarljósum í stað ljóslausra afreina.

Maður gekk undir manns hönd að biðja um frestun á málinu, en svörin voru á þá lund að svo langt væri síðan ákvörðun hefði verið tekin og undirbúningur svo langt kominn - meira að segja löngu búið að byggja brú sem þyrfti að nýta - að ekki væri hægt að hætta við. Semsagt of seint að andmæla. Þeir eru þegar margir sem spurt hafa hvernig þessi ákvörðun var tekin. Lítið er um svör og fáir mæla henni bót.

Erlendir sérfræðingar sem hafa verið hér á ferð eru klumsa en þó kurteisir. Einn þeirra sagði nýlega að þetta væri e.t.v. eitthvað til að læra af.

Nú liggja fyrir tvær ákvarðanir sem snerta Hringbrautarsvæðið og hina gömlu byggð í Þingholtum og við Skólavörðuholt.

Önnur þeirra er stór en orkar mjög tvímælis, bæði frá faglegu og skipulagslegu sjónarmiði. Það er bygging svokallaðs hátæknisjúkrahúss á Landspítalalóð.

Efasemdir fagfólks í heilbrigðisgeiranum eru miklar og hef ég heyrt að allt að 80% starfsfólks sjúkrahúsanna tveggja séu mótfallin einum spítala, byggja beri upp á tveimur stöðum, ekki sízt vegna öryggissjónarmiða. Þá sé þörfin fyrir önnur úrræði, t.d. hjúkrunarheimili, brýnni, þ.e. að langveikir, aldraðir og þeir, sem koma úr aðgerðum, taki ekki upp sjúkrarými á spítulunum.

Eftir að niðurstöður úr samkeppni voru birtar er full ástæða til að hafa uppi efasemdir um að starfsemin komist fyrir á hinni nýju lóð sem tilkomin er við færslu Hringbrautar nema með háum byggingum og miklu umferðaröngþveiti, sem rýra mun hina gömlu byggð verulega. Lóðin virðist m.ö.o. vera of lítil. Þarna er greinilega um ákvörðun að ræða sem tvímælalaust ætti að slá á frest og skoða nánar, verðugt verkefni fyrir nýjan heilbrigðisráðherra.

Hin ákvörðunin er minniháttar en engu að síður er jafn mikilvægt að endurskoða hana. Þar er um að ræða byggingu bensínstöðvar tengda flutningi Hringbrautar. Og nú er spurt: Er ekki búið að gera nægileg mistök með gerð þessarar brautar þótt ekki sé bætt við bensínstöð með pulsusölu og öðru sem slíkum stöðvum fylgja? Það hafa að vísu verið gerðir samningar við Olíufélagið um stöð til 10 ára á þessum stað vegna lokunar stöðvarinnar við Geirsgötu þar sem bygging tónlistarhúss er að hefjast. En er þetta ekki ákvörðun sem nauðsynlegt er að hætta við? Er ekki nóg komið? Má ekki dusta rykið af benzínafgreiðslunni við Umferðarmiðstöðina og leyfa Olíufélaginu að selja benzín þar. Þar eru tankar í jörðu og allt til alls, líka ágætis veitingarekstur. Þetta yrði bráðabirgðaráðstöfun þar til Umferðarmiðstöðin flyzt eins og ráðgert er.

Ákvörðunum á að slá á frest eða hætta við ef vafi leikur á að þær séu réttmætar. Það er mun ódýrara en að ráðast í rangar framkvæmdir jafnvel þótt rifta þurfi samningum. Færsla Hringbrautar er eitt besta dæmið um það.

P.S. Hvernig væri að hætta að tönnlast sífellt á nafninu Landspítali - háskólasjúkrahús. Er ekki gamla góða nafnið Landspítali nógu gott? Það vita flestir að spítalinn er háskólasjúkrahús.