Vandaður undirbúningur í hönnun á nýjum spítala

7. maí 2021

Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri hönnunarsviðs NLSH segir að undirbúningurinn í hönnun á nýjum spítala sé vandaður sem skili sér í betri spítala, bæði litið til gæða og fjárhags.

Hátt í 5.000 teikningar fylgja nýja meðferðarkjarnanum. Sigríður segir þúsundir teikninga einnig fylgja rannsóknahúsi, bílastæðahúsi, götum, veitum og umhverfi sem og nýbyggingu Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.

„Allt er undir, allir innviðir,“ segir Sigríður. Við þessa framkvæmd rúmlega tvöfaldist húsakynni á lóð Landspítalans. Stefnt er að hönnun á meðferðarkjarnanum ljúki í sumar sem og verklýsingum. Jarðvinnan fyrir rannsóknahúsið hefst mjög fljótlega

og að bílastæða- og tæknihúsið fari í alútboð fljótlega. „Þar var haldið forval og fyrir liggur hverjir taka þátt í útboðinu.“

Sigríður bendir á að með nýja meðferðarkjarnanum klárist ekki uppbygging Landspítala. Enn sé pláss við Hringbraut. „Svo má ekki gleyma því að það á eftir að vinna með eldri byggingarnar. Þessar byggingar eru á staðnum og hægt að finna þeim nýtt líf. Það er verið að breyta og bæta á lóðinni sjálfri og við höfum því bent á að það verður að horfa á allt svæðið. Þetta er eins og þorp í borginni,“ segir hún.

„Jú, við erum mjög stolt,“ svarar hún spurð. „Þetta verður allt annað umhverfi fyrir sjúklinga og starfsmenn. Allt annar heimur en þau eru vön.“ Heilbrigðiskerfið stígi nú inn í nýja tíma.

„Allir ferlar, tæki og aðbúnaðurinn. Allt umhverfið. Þetta verður algjör bylting.“ Hugað sé að svo mörgu sem ekki hafi verið hægt á gamla spítalanum. „Hvernig mun sjúklingnum líða? Hver er aðstaða gesta? Starfsmanna? Nú er tækifæri til að hugsa á nýjan hátt.“

Sigríður er sannfærð um að landsmenn eigi eftir að verða ánægðir með byggingarnar. „Ég veit að við munum sameinast um nýtt þjóðarsjúkrahús.“ En trúir hún að starfsemi spítalans verði kominn í það horf sem stefnt sé að 2025-26?

„Já,“ svarar hún afdráttarlaust. „Við vinnum hörðum höndum að því, það eru allir með.“


„Nú eru hjólin farin að snúast. Þá verður ekki aftur snúið. Nú rís spítalinn,“ segir Sigríður.