Verið að vinna úr tilboðum í rörpóstkerfi fyrir nýjan spítala

19. janúar 2021

Rörpóstur verður i nýjum byggingum Landspítala og möguleiki er að setja hann einnig inn í eldri byggingar.

En hvað er rörpóstur? Rörpóstur er rörakerfi sem teygir sig inn á allar deildar meðferðarkjarnans og yfir í rannsóknarhúsið. Eftir þessu rörakerfi ferðast hylki sem eru 16 cm í þvermál og um 40 cm löng. Það eru blásarar sem blása hylkjunum á milli stöðva, en á leið þeirra eru brautarstöðvar sem flytja hylkin sjálfvirkt milli greina í kerfinu. Heildarlengd röranna er um 4 km og stöðvar til að senda hylki og taka á móti þeim verða um 75. Í þessum hylkjum eru flutt sýni frá deildum yfir í rannsóknarhúsið, lyf frá apótelinu yfir á deildir og ýmislegt annað. Það tekur hylkið að um 5-8 mínútur að ferðast á milli staða. Með þessu móti komast sýni hraðar til rannsóknardeildanna og það flýtir fyrir greiningu. Lyf berast frá apóteki á örskömmum tíma. Reiknað er með 1200 hylkjasendingum á sólarhring og hylkin fara síðan tóm til baka á sína heimastöð.

Nú hafa tilboð borist frá 5 helstu framleiðendum rörpóstkerfa og eru þau nú til skoðunar og mats.