Vill ekki fresta uppbyggingu Landspítala

12. maí 2013

Það þýðir ekki að fresta uppbyggingu Landspítalans og styrkja þess í stað heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, sagði yfirlæknir á Egilsstöðum í samtali við fréttastofu RÚV á dögunum. Gera verði hvort tveggja.

Yfirlit

Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa lýst því yfir að áætlanir um nýbyggingar spítalans eigi að endurskoða og lögð verði áhersla á heilbrigðisþjónustu um allt land. Stefán Þórarinsson, lækningaforstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, segir ekki hægt að gera bara annað hvort. Báðir þessir hlutar heilbrigðiskerfisins séu fjársveltir til margra ára og að byggja þurfi  nýjan Landspítala alveg óháð vandamálum annars staðar í kerfinu.

Stefán var einn þeirra sem kom fram á málþingi um nýjan Landspítala sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík í vikunni. Hann segir ekki hægt að aðskilja uppbyggingu Landspítalans annars vegar og á landsbyggðinni hins vegar. Umræða um að hægt sé að fresta Landspítalanum og byggja annað upp sé grunnfærin. Það þurfi að gera hvort tveggja.