Nýjungar í hönnun nýs meðferðarkjarna

19. september 2015

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala , segir frá vinnu við hönnun nýs meðferðarkjarna í vikulegum pistli sem birtur er á heimasíðu Landspítalans. Hann rifjar upp þau tímamót þegar nýlega var skrifað undir samning um fullnaðarhönnun nýs meðferðarkjarna. Nú í vikunni hafa 40 starfsmenn unnið að frekari hönnun meðferðarkjarnans.

„Það eru starfsmenn Corpus sem munu fullnaðarhanna meðferðarkjarnann en fulltrúar þeirra, sem og stjórnendur og almennir starfsmenn, komu að vinnunni. Einnig fengum við góðan liðstyrk frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins“, segir Páll.

Páll ræðir um kosti sameiningar fyrir bráðamóttökurnar sem eru fimm talsins á fimm stöðum í dag. Unnið hefur verið eftir aðferðarfræði Lean-management og 3P aðferðarfræðinnar (Production Preparation Process) í hönnunarferlinu í samstarfi við sérfræðinga frá Bandaríkjunum. 

„Þetta mun vera í fyrsta sinn sem þessari aðferð er beitt við hönnun á Íslandi en markmiðið er að gera alla verkferla örugga, skilvirka og hagkvæma. Þannig þjónum við sjúklingunum okkar best, bætum vinnuumhverfi starfsfólks og nýtum fjármuni vel“, segir Páll.

  • Pistil Páls má lesa hér
  • Hægt er að fræðast um vinnuferlið í myndbandinu hér
  • Ljósmyndir frá vinnusmiðjunni og kynning á niðurstöðum vinnuhóps

Framundan er frekari vinna við hönnun annarra rýma í meðferðarkjarnanum og í næstu viku hefst vinna við legudeildir. Þar kemur annar hópur starfsmanna að með sína reynslu og koma aðilar frá Sjúkrahúsinu á Akureyri í þá vinnu.