Fréttir


Vinnustaðaeftirlit, keðjuábyrgð og myndatökur á verkstað

26. september 2024

Í þættinum Kveik 24.9.24 hjá RÚV var birt myndefni sem tekið var upp inn á vinnusvæði NLSH við Hringbraut. Þar mátti m.a. sjá starfsmenn verktaka sem vinna á svæðinu og merkingar fyrirtækjanna á meðan umfjöllun um starfsmannaleigur, illan aðbúnað og launaundanskot var til fréttaflutnings. Hefði mátt skilja það sem svo, af þriðja aðila, að umrædd fyrirtæki sem sýnd voru að störfum ættu í hlut

Nú í byrjun september mætti vinnustaðaeftirlit ASÍ og SA á vinnusvæði Nýs Landspítala eins og svo oft áður sbr. lög nr. 42/2010 um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum. Í 4. gr laganna um eftirlit á vinnustöðum segir að "Eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins er heimilt að fara í eftirlitsheimsóknir á vinnustaði atvinnurekanda til að ganga úr skugga um að atvinnurekandi og starfsmenn hans starfi í samræmi við gildandi lög, reglugerðir og kjarasamninga. Skal eftirlitsfulltrúunum veittur aðgangur að vinnustöðum í þeim tilgangi".

NLSH ítrekar við alla gesti og fjölmiðla á framkvæmdasvæðinu við Hringbraut að allar myndir megi ekki vera persónugreinanlegar né heldur sé hægt að rekja þær til verktaka á staðnum s.s. með lógómerkjum fyrirtækja. Slíkum áskilnaði var komið á framfæri áður en myndatökur hófust. NLSH gerði því ekki athugasemdir við myndatökurnar enda í raun á ábyrgð vinnustaðaeftirlits ASÍ og SA. Það er ekki óvanalegt að fjölmiðlar fái að taka myndir af opinberum framkvæmdum við Hringbraut og ávallt ítrekað að persónuvernd og lögverndun myndefnis sé mikilvæg sbr. persónuverndarstefnu NLSH. Myndefnið í þættinum var því miður rekjanlegt og vill NLSH í ljósi þess biðja alla sem hlut eiga að máli afsökunar á myndbirtingunum RÚV sem voru ekki í samræmi við þá skilmála sem NLSH setti fram.

NLSH tekur þátt í verkefnum líkt og um vinnustaðaeftirlit og vinnustaðaskírteini skv. lagaskyldu, einnig sérverkefnum með RSK vegna skattaskila en mestu kröfurnar koma fram í útboðsgögnunum sjálfum og þeim skilagreinum sem m.a. verktakar skila inn mjög reglulega. Þar má nefna ákvæðin um keðjuábyrgð o.fl. Allir starfsmenn á verksvæðum NLSH þarfnast skráningar og rekjanleika og ljóst er nákvæmlega hverju sinni hverjir eru til staðar skv. stafrænu eftirliti á verkstað. Allir starfsmenn á verksvæðum hafa rétt til að vísa til keðjuábyrgðar skv. samningum verkkaupa (NLSH) og verktaka. Alla jafna eru allir aðalverktakar og undirverktakar þeirra sem taka þátt í opinberum útboðum NLSH skv. lögum 120/2016 um opinber innkaup með fasta starfsmenn enda rík krafa gerð til fyrirtækjanna um hæfi og hæfni.

Að lokum óskar NLSH eftir góðu samstarfi við vinnustaðaeftirlit ASÍ og SA, fjölmiðla og alla verktaka á svæðinu, hér eftir sem hingað til.