Vor í lofti og krummi mættur

27. febrúar 2023

Einkennandi fyrir byggingasvæðið er umferð fugla í bland við flugvélar. Tjaldar, gæsir og hrafnar eru á ferðinni og síðastliðið sumar komu hrafnar sér fyrir í einum krananum í hreiðurgerð og það gladdi gesti og gangandi að fylgjast með þeim fljúga að og frá og þeir létu það ekkert á sig fá þó kraninn væri í notkun. Í síðustu viku þótti sýnt að þeim hafi líkað vistin svo vel í fyrra að þeir voru aftur mættir, og farnir að bjástra við vorverkin á sama stað í sama krananum. Inn á milli með að sækja aðföng þá koma þeir sér fyrir á staurum og þökum og krunka þar sín á milli. Hér má sjá hrafninn Mínus á staur við hús verkeftirlitsins. Hann tekur greinilega þátt í þeirri starfsemi með reglulegu flugi yfir nýbygginguna.