Heimsókn Nordic GovTech Alliance

Þann 12. maí 2025 heimsótti sendinefnd Nordic GovTech Alliance framkvæmdasvæði NLSH við Hringbraut.

Sendinefndin er skipuð opinberum fulltrúum frá Íslandi, Svíþjóð og Finnlandi. Meginmarkmið með heimsókninni var að kynna sér hvernig hönnun og framkvæmd nýs spítala nýtir háþróaða tækni og þverfaglegt samstarf til að efla sjúklingaþjónustu og auka rekstrarhagkvæmni með sérstaka áherslu á nýjungar í opinberum innkaupaaðferðum. Í upphafi var kynning Gísla Georgssonar verkefnastjóra NLSH og að henni lokinni var gengið um meðferðarkjarnann þar sem verkefnastjórar NLSH, Jóhann G. Ragnarsson og Jens Hjaltalín Sverrisson, sýndu gestum um meðferðarkjarnann og framkvæmdasvæðið.

„Það var virkilega lærdómsríkt að sjá hvernig þessi mikilvæga innviðaframkvæmd er að verða að veruleika. Stjórnvöld á Norðurlöndunum hafa sameiginlega hagsmuni af því að læra hvert af öðru og móta framtíð heilbrigðisþjónustu með nýsköpun og samþættri eftirspurn eftir nýjungum. Heimsóknin markar tímamót í vegferð Nordic GovTech Alliance að efla sameiginlegt lærdómsumhverfi og skalanlegar lausnir á Norðurlöndum. Með samræmdri áherslu á stafræna umbreytingu og sjálfbæra þróun leitast bandalagið við að móta ný viðmið í opinberri nýsköpun," segir Sveinbjörn Ingi Grímsson hjá Fjársýslu ríkisins.