
Hönnun, framkvæmdir og gervigreind á Sumarmálstofu NLSH
Þann 19.júní var haldin sumarmálstofa NLSH, sem haldin hefur verið árlega síðustu ár, en félagið stendur reglulega fyrir málstofum, fyrir hagaðila, um framgang verkefna félagsins.
Megin áhersla þessa fundar voru hönnunar- og framkvæmdaatriði, en einnig var fjallað um tækifæri í byggingariðnaði með notkun gervigreindar.
Í upphafi málstofu bauð Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri NLSH gesti velkomna og að því loknu hófst dagskráin með fjölbreyttum erindum sem voru voru flest frá starfsmönnum NLSH. Ólafur M. Birgisson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs NLSH stiklaði á stóru um helstu framkvæmdaverkefni NLSH, að því loknu var komið að Hirti Sigurðssyni framkvæmdastjóri Mynstru ehf. sem fjallaði um hvernig gervigreind getur nýst í mannvirkjaiðnaði og í opinberum framkvæmdum.
Fram kom í erindi Hjartar að gervigreind getur aukið skilvirkni í skýrslugerð, greiningu á útboðsgögnum og samræmingu gagna. Einnig getur þessi nýja tækni búið til gagnvirk mælaborð með upplýsingum úr framvinduskýrslum, fundargerðum og vinnuskjölum og getur þessi stafræna umbreyting aðstoðað við að nýta tæknina á hagkvæman og skilvirkan hátt.
Að gervigreindinni lokinni var komið að fyrirlestri um útveggi meðferðarkjarna og rannsóknahúss sem Bergþóra Smáradóttur hjá NLSH hélt. Síðasta erindið fjallaði síðan um skönnun og BIM á verkstað meðferðarkjarnans sem Ásbjörn Jónsson hjá NLSH sá um að kynna.
Að lokum hélt Alma D. Möller heilbrigðisráðherra lokaorð og málstofunni lauk með tónlistaratriði í flutningi bræðranna frá Hafnarfirði Kristmundar Guðmundssonar og Sveins Guðmundssonar.
Málstofan var vel sótt að venju og málstofugestir margs vísari um framkvæmdaverkefni NLSH og fengu að fræðast um hvernig gervigreindin getur brúað bilið milli hefðbundinna vinnubragða og nýjustu tækni í byggingariðnaði.
Myndatexti forsíðumynd: Alma D. Möller heilbrigðisráðherra flutti lokaorð

