
Innivinna fer vel af stað í meðferðarkjarna
Framkvæmdir við meðferðarkjarna halda áfram með góðum hraða, þar sem meðal annars er unnið við innivinnu og frágang á legudeildum fimmtu og sjöttu hæðar. Á hæðunum verður vinna við gólfílagnir og undirbúning fyrir frekari vinnu í gangi næstu vikurnar. Í kjallara hússins er unnið við ílagnir í gólf ásamt umfangsmikilli málningarvinnu sem mun halda áfram á næstu vikum. Á öllum hæðum hússins er unnið að lokun lyftuganga, þar sem undirbúningur á uppsetningu hluta þeirra fjölmörgu lyfta í húsinu er hafinn.
Lokafrágangur á útveggjaklæðningu stendur yfir, þar sem helstu verkþættir eru þensluskil, þakkantar og uppsetning glugga og hurða. Á fjórðu hæð fer fram þétting útveggja, þar sem inntaksrými fyrir loftræsingu hússins eru staðsett.
„Vinna við þök er í fullum gangi, þar sem m.a. er unnið að lagningu einangrunar, söndun og yfirborðsfrágangi, ásamt vinnu við loftræsihýsi á þaki. Í sumar og haust er gert ráð fyrir að nokkrir lykilverkþættir klárist, á sama tíma og ný verkefni hefjast á flestum hæðum hússins, “segir Árni Kristjánsson, staðarverkfræðingur NLSH.