
Yfirborðsmælingar með dróna
Framkvæmdir við gatnasvæðið vestan við meðferðarkjarnann og bílastæðahúsið eru að hefjast. Samhliða því verður beitt sérstakri tækni við mælingar, með þar til gerðum dróna sem notar LiDAR, sem er skammstöfum á Light Detection and Ranging en slíkur dróni sendir laserpúlsa frá sér til jarðar og með endurkastinu er hægt að búa til mjög nákvæm gögn af landslaginu og búa til þrívíddarmyndr. LiDAR-tæknin kemur að mjög miklu gagni við framkvæmdir þar sem hægt er að skoða breytingar á framvindunni.
Drónamæling af yfirborði verður í upphafi verks framkvæmd til að fá núlllpunktinn í verkið. Út frá drónamælingunni er síðan hægt að taka stöðuna reglulega yfir verktímann til að fylgjast með framvindu og vinna með gögn í uppgjöri. Reglulegt drónaflug veitir jafnframt mikilvægar upplýsingar í myndum af framvindu verksins.
Fyrirtækið Svarmi mun skanna svæðið til að nema samtímis bæði dýpt og liti. Til að tryggja sentimetra nákvæmni eru leiðréttingar- og sannprófunarpunktar á jörðu niðri mældir með RTK-GNSS búnaði. Útkoman er þétt punktaský þar sem hver punktur hefur nákvæm hnit í þrívídd og raunverulegan lit.
Þessi gögn mynda saman nákvæman stafrænan „tvíbura“ af svæðinu. LiDAR-dróni er ómetanlegt verkfæri í hönnun og við framvindueftirlit og til að greina breytingar á milli mælinga, til dæmis með beinum samanburði við hönnunargögn eða fyrri skannanir.