Rannsókna­hús

Í rannsóknahúsi hins nýja spítala sameinast öll rannsóknastarfsemi spítalans á einn stað. Starfseiningar í rannsóknahúsi verða meinafræði, rannsóknakjarni, klínísk lífefnafræði og blóðmeinafræði, frumuræktunarkjarni, frumumeðhöndlun, erfða- og sameindalæknisfræði, ónæmisfræði og sýkla- og veirufræði. Starfsemi Blóðbanka mun einnig flytjast í bygginguna. Í tengslum við meinafræðieiningu verður líkhús og krufning og aðstaða fyrir réttarmeinafræði.

Rannsóknahúsið tengist meðferðakjarna og öðrum byggingum spítalans með sérstöku rörpóstkerfi.

Með því munu deildir spítalans geta sent sýni til rannsókna í rannsóknahús á örfáum mínútum. Í rannsóknahúsi verður einnig móttaka sýna sem berast utan frá Landspítala.

Rannsóknir eru í eðli sínu lifandi vettvangur og starfsumhverfi því síbreytilegt. Rannsóknastarfsemi er í stöðugri þróun og mikilvægt að byggingin sem hýsir þessa starfsemi sé sveigjanleg og geti brugðist við þessum breytileika. Rannsóknahúsið er vettvangur flókinnar starfsemi og um leið vinnuaðstaða færustu sérfræðinga.

Gert er ráð fyrir þyrlupalli á þaki rannsóknahúss. Hann tengist bráðamóttöku og fleiri deildum í meðferðarkjarna um tengibrú. Þyrlupallurinn þarf að geta tekið við þyrlum af ýmsum gerðum og er stærð hans ákvörðuð m.t.t. þyrlna sem eru lengri og þyngri en núverandi þyrlur Landhelgisgæslu Íslands, til að tryggja nýtingu til framtíðar.