
Fyrstu loftaplötur kjallara meðferðarkjarna steyptar um mánaðamótin
Að sögn Eysteins Einarssonar, staðarverkfræðings hjá NLSH, eru helstu verkþættir sem nú eru í gangi við uppsteypu meðferðarkjarna áframhaldandi vinna við mótauppslátt, járnabendingu, jarðskaut, fyllingar og lagnir í grunni.
“Vinna við undirstöður og botnplötur í neðri kjallara er langt komin og áætlað að henni ljúki í byrjun næsta árs. Samhliða er vinna við jarðskaut, fyllingar og lagnir í grunni í fullum gangi”, segir Eysteinn.
Vinna við kjallaraveggi heldur áfram og einnig vinna við súlur. Utanhúss- frágangur kjallaraveggja hefst fljótlega sem og fyllingar að þessum veggjum.
Vinna við fyrstu loftaplötur yfir neðri kjallara er hafin og áætlað að fyrsti hluti plötunnar verði steyptur um mánaðamótin og í framhaldi af því hefst vinna við uppsteypu veggja og súlna efri kjallara.