Ingolfur Verkefnastjori NLSH

Ný verkefni hjá NLSH – breytingar á innra skipulagi

Á aðalfundi NLSH árið 2020 var samþykktum félagsins breytt þannig að það getur nú, skv. nánari ákvörðun heilbrigðisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis, tekið að sér umsýslu og framkvæmd með öðrum verkefnum en einungis þeim sem tengjast nýframkvæmdum í Hringbrautarverkefninu.

Nokkrar breytingar eru því gerðar á innra skipulagi NLSH og hefur verið stofnað nýtt verkefnasvið hjá NLSH sem heitir þróunarsvið. Á næstunni mun þróunarsviðið taka að sér verkefni sem m.a. tengjast eldhúsi, vörumóttöku, flokkunarstöð, K-byggingu og Kringlu á spítalalóð LSH við Hringbraut. Ennfremur verkefni Vífilsstaðaspítala og verkefni varðandi tæki og búnað fyrir meðferðarkjarna og rannsóknahús.

Þá er nýja sviðinu einnig ætlað að vinna að flutningaáætlun þegar starfsemi LSH flyst úr eldra húsnæði í nýbyggingar og vinna heildarskipulag fyrir lóðir spítalans m.t.t. þróunar í starfsemi heilbrigðisþjónustu á Íslandi, en heilbrigðisráðuneytið er að hefja vinnu að greiningu á framtíðarþjónustu Landspítala í samræmi við samþykkta heilbrigðisstefnu.

Meginþungi í vinnu þróunarsviðs næstu mánuði verður að vinna forathuganir í samræmi við lög um skipan opinberra framkvæmda.

Sviðsstjóri nýja sviðsins er Ingólfur Þórisson, sem var starfsmaður á hönnunarsviði NLSH og starfaði áður um áratugaskeið hjá Landspítala.