Ný verkefni í upplýsingatækni

NLSH vinnur hörðum höndum að undirbúningi tölvukerfa og hugbúnaðarlausna fyrir nýju byggingarnar sem nú rísa. Í október síðastliðnum var birt heildstæð áætlun fyrir upplýsingatækniverkefni næstu ára, og í framhaldi af því hófust fyrstu greiningarverkefnin samkvæmt áætluninni.

Sérstaklega áberandi eru þau verkefni sem tengjast hinu nýja Rannsóknarhúsi, en þau verða umfangsmikil. Í vetur fór fram ítarleg greining á öllum helstu verkferlum rannsóknarstofa Landspítala. Þessi vinna leggur grunninn að þróun tölvukerfa sem munu styðja við breytta verkferla í kjölfar nýrra rannsóknartækja og sameiginlegrar sýnamóttöku í Rannsóknarhúsinu.

Að sögn Kristjáns Sturlaugssonar, verkefnastjóra hjá NLSH, hefur greiningarvinnan gengið vel og er áætlað að henni ljúki í haust. Auk starfsfólks NLSH hafa sérfræðingar frá rannsóknarstofum Landspítala og reyndir erlendir ráðgjafar frá ráðgjafafyrirtækinu Vali komið að verkinu.

Í Rannsóknarhúsinu er áformað að koma upp fullkomnum sjálfvirkum frysti fyrir lífsýni. Í tengslum við það verður innleitt nýtt lífsýnasafnskerfi fyrir Landspítala, og mun þarfagreining og undirbúningur fyrir útboð kerfisins hefjast í ágúst.

Einnig er á dagskrá að hefja þróun á sameiginlegu beiðna- og svarakerfi fyrir rannsóknir á Landspítala, sem mun styðja við nýja sýnamóttöku og einfalda upplýsingaflæði.

Af öðrum upplýsingatækniverkefnum má nefna að boðið verður út nýtt sjúkrakallkerfi fyrir Meðferðarkjarnann, nýbygginguna við Grensásdeild og væntanlega legudeildarbyggingu á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Á Grensásdeild verða einnig keypt tæki sem skila gögnum beint inn í sjúkraskrá Landspítala. Undirbúningur og samþætting þessara tækja við tölvukerfi LSH er eitt af verkefnum komandi vetrar.

Í vetur hefur verið unnið við skilgreiningar, gerð handbóka og leiðbeininga vegna stöðlunar á forritun stýrivéla (PLC), og tengingu þeirra við hússtjórnarkerfi. Í Meðferðarkjarna og Rannsóknarhúsi verður fjöldi flókinna tæknikerfa sem munu öll tengjast einu samræmdu hússtjórnarkerfi. NLSH leggur mikla áherslu á að verktakar fylgi þessum leiðbeiningum til að tryggja gæði, einsleitni og samræmi við bestu venjur.

Að lokum má nefna að ferlagreining fyrir starfsemi Lyfjaþjónustunnar er í fullum gangi, og ákveðið hefur verið að hefja strax í haust markaðskönnun og greiningu á valkostum fyrir birgðahald í lyfjaherbergjum.