
Samspil þekkingarsamfélagsins við nýjan spítala mikilvæg fyrir borgina
Dagur B.Eggertsson borgarstjóri segir að nýr spítali verði í takti við tímann sem við höfum ekki verið með undanfarinn áratug og að borgin og lífsgæði íbúa þróist fram á við með nýja spítalanum.
„Ég hef verið mjög upptekinn af því hvernig borgin á að þróast til að geta haldið uppi lífsgæðum. Þekkingarhagkerfið kemur þar mjög sterkt inn,“ segir Dagur og nefnir hvernig uppbygging Landspítala, Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýri og þekkingarstarfsemi í kringum Háskólann í Reykjavík myndi heildarsamhengi í borgarmyndinni.
„Samspil þessara þekkingarstofnana og fyrirtækja; eins og Íslenskrar erfðagreiningar, Alvogen, CCP, Grósku og annarra fyrirtækja sem hafa komið sér fyrir í Vatnsmýri, er afar mikilvægt fyrir borgina. Þróunin heldur lífskjörum fólksins sem hér býr uppi.“
Kynna Vatnsmýrina erlendis
Dagur segir marga hafa vanmetið þann mikla styrk sem borgin hafi af þessum þekkingarstofnunum svo nálægt hver annarri.
„Við gengum nýlega formlega frá samstarfi borgarinnar, Landspítala, Háskóla Ísland og Háskólans í Reykjavík um að móta sameiginlega framtíðarsýn að vísindaþorpi í Vatnsmýri,“ segir hann. „Við höfum einnig gengið til samstarfs við sömu aðila og Íslandsstofu um markaðssetningu svæðisins til að laða erlend þekkingarfyrirtæki og fjárfestingu inn á þetta svæði. Þannig að framtíðin er björt í þekkingargreinum.“
Vaxtartækifærin séu mörg og borgaryfirvöld skipuleggi byggð í grennd við þessi mikilvægu svæði. Hann sér fyrir sér lifandi þekkingarborg þar sem fólk þeysist í vinnuna á umhverfisvænan hátt; á rafskútum og hjólum.
„Framtíðarsýn borgarinnar er að þjóna þessu svæði frábærlega með öflugum almenningssamgöngum.“ Kópavogsbúar geti til að mynda komið yfir Fossvoginn og nánast upp að dyrum spítalans. Aðeins örfáar mínútur taki að ferðast á milli þessara stofnana og fyrirtækja. „Borgarlínan mun binda þetta svæði saman,“ segir hann.
„Það verður jafn lítið mál að fara á milli háskólanna og að spítalanum með Borgarlínu og að labba á milli bygginga innan svæðis Háskóla Íslands í dag.“
Standist þeim bestu snúning
Dagur segir metnað í uppbyggingu spítalans þegar hafa skilað ákveðnum árangri. „Við viljum að Landspítali standist bestu spítölunum snúning og við vitum að við höfum mannauðinn í það,“ segir læknismenntaður borgarstjórinn og nefnir hvernig heilbrigðisstarfsfólk hafi sótt framhaldsnám erlendis, oft á bestu háskólasjúkrahús í heimi. „Þetta fólk hefur svo komið til baka og myndað mikinn suðupott.“
Hann segir að lokum að Reykjavíkurborg hafi séð uppbyggingu spítalans sem tækifæri til að efla borgina. „Við verðum að þróa spennandi atvinnutækifæri í Vatnsmýrinni fyrir þekkingarhagkerfið, skapandi greinar, verslun- og viðskipti og aðra starfsemi til þess að fólk með hugmyndir, metnað og framtakssemi velji sér stað hér,“ segir hann.
„Heildarsýn er að vera með örugga, heilbrigða lífsgæðaborg sem veitir góða þjónustu. Það er kjarninn í því að búa til góða borg.“