
Vinna stendur yfir vegna kaupa á rannsóknatækjum í nýjan spítala
Á þróunarsviði eru mörg viðamikil verkefni þessa daga og má þar helst nefna að nú standa yfir fundir með erlendum ráðgjöfum sem ætlað er að koma að undirbúningi innkaupa á rannsóknartækjum fyrir spítalann. Kaup á tækjum er mjög viðamikið verkefni sem krefst mikils undirbúnings.
Önnur helstu verkefni þessa daga er að unnið er að heildarskipulagi á húsnæði Landspítala og við undirbúning stoðbygginga á Hringbrautarlóð segir Helgi Ingason verkefnastjóri á þróunarsviði NLSH.
Auk þess er unnið að hönnun miðlægra tæknikerfa svo sem vararafstöðvar, varakyndingar og kælikerfis bygginga auk undirbúnings innkaupa á lækninga- og rannsóknartækjum ásamt uppýsingakerfum.
Forathugun vegna staðsetningar á starfsemi vörumóttöku og flokkunar lauk í síðustu viku með skilum á forathuganarskýrslu. Skýrslan var unnin í samstarfi við Landspítala og Ask arkitekta.
Vinna við forathugun fyrir eldhús spítalans er í gangi og stefnt að því að henni ljúki í febrúar á næsta ári. Danskir ráðgjafar BKD vinna með NLSH að undirbúningi breytinga á starfsemi eldhússins en fyrirhugað er að skipta um framleiðsluaðferð og nota svokallaða cook-chill aðferðafræði.
Búið er að semja við hönnuði vegna hönnunar á tæknikerfum spítalans sem verða í bílastæða- og tæknihúsi og hönnun á kerfum eins og rörpósti og sorp- og línflutningskerfi er á lokametrunum.
Vinna við heildarskipulag húsnæðis spítalans heldur nú áfram. Stefnt að því að gera úttekt á sveigjanleika og ástandi húsnæðis spítalans og vinna við að móta það ferli er langt komin.
Því má segja að það mörg og krefjandi verkefni séu fram undan á þróunarsviðinu, segir Helgi Ingason.