
Vinnustofa um samþættingu framkvæmda- og innkaupaáætlana
Í vikunni var haldin vinnustofa með ráðgjafafyrirtækjunum Nosyko og Exigo þar sem markmiðið var að samræma tímaáætlanir vegna innanhússframkvæmda í meðferðarkjarna og fyrirhugaðra innkaupa á lækningatækjabúnaði.
Nosyko er norskt ráðgjafafyrirtæki á sviði heilbrigðistækni og hefur víðtæka reynslu sem ráðgjafi við flest nýbyggingarverkefni sjúkrahúsa í Noregi.
Exigo vinnur með NLSH að áætlunargerð vegna vinnu við innanhússfrágang í meðferðarkjarna og fleiri nýbyggingum sem NLSH byggir. Þeir sérhæfa sig í verkefna- og áhættustýringu, framvindueftirliti og áætlanagerð í viðamiklum byggingaverkefnum.
„Tækjavæðing meðferðarkjarna er umfangsmikið verkefni og má gera ráð fyrir því að útboðin verði yfir áttatíu talsins. Í ljósi þessa er brýnt að unnið verði eftir skýrri tímaáætlun sem samræmir afhendingu búnaðar við framvindu innanhúsframkvæmda og tryggir að réttur búnaður verði til staðar á réttum tíma,” segir Björg Guðjónsdóttir verkefnastjóri hjá NLSH.