Starfsmenn framkvæmda og viðhalds Reykjavíkurborgar í heimsókn

Þann 5. júní tók NLSH á móti hópi starfsmanna frá skrifstofu framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg.

NLSH hefur um árabil átt í nánu og góðu samstarfi við Reykjavíkurborg enda hefur uppbygging nýs Landspítala marga snertifleti við skipulags - og samgöngumál hjá borginni.

Fjölmargir starfsmenn frá ýmsum deildum borgarinnar hafa heimsótt framkvæmdasvæði NLSH við Hringbraut á umliðnum árum.

Heimsóknin var hluti af fræðsludegi skrifstofu framkvæmdadeildar og hófst á hefðbundinni kynningu framkvæmdastjóra NLSH, Gunnars Svavarssonar. Mikill áhugi var meðal gesta og líflegar umræður voru um þau viðamiklu byggingaverkefni sem NLSH vinnur að. Að kynningu lokinni var framkvæmdasvæðið skoðað undir leiðsögn Ólafs M. Birgissonar sviðsstjóra framkvæmdasviðs, Ásbjarnar Jónssonar verkefnastjóra og Jóhanns G. Gunnarssonar staðarverkfræðings. Heimsóknin heppnaðist afar vel og er mikilvægur hluti af þvi nána samstarfi sem starfsmenn NLSH eiga við starfsmenn Reykjavíkurborgar varðandi ýmis mál er varða framkvæmdir við Hringbraut.

Nýlega var undirritaður samningur Nýs Landspítala ohf. við Alma Verk ehf. vegna endurgerðar Fífilsgötu milli Hringbrautar og Gömlu Hringbrautar og upprif á hluta Hrafnsgötu.

Verkið er samstarfsverkefni NLSH, Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar ásamt aðkomu Mílu, Ljósleiðarans og Veitna.

Nánari umfjöllun um þessa framkvæmd má sjá hér:

„Þetta var áhugaverð og fræðandi heimsókn á framkvæmdasvæði NLSH. Einstakt tækifæri að fá að heimsækja staðinn á þessum tímapunkti nú þegar framkvæmdir eru í fullum gangi. Frábær leiðsögn um svæðið og fræðandi yfirferð um staðhætti. Frábært að sjá hvernig gamli spítalinn fær að njóta sín innan um nýbyggingarnar. Takk fyrir okkur á skrifstofu framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg,“ segir Ámundi V. Brynjólfsson skrifstofustjóri á skrifstofu framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg.

Það viðraði einstaklega vel á hópinn meðan á heimsókninni stóð

Smelltu á myndina til að stækka

Heimsóknin hófst á viðamikilli kynningu Gunnars Svavarssonar framkvæmdastjóra á helstu framkvæmdaverkefnum félagsins

Smelltu á myndina til að stækka