Bílastæða- og tæknihús
Í bílastæða- og tæknihúsi (BT hús) verða stæði fyrir um 500 bíla og fyrir 200 hjóla-og rafhjólastæði.
Gert er ráð fyrir að starfsmenn Landspítala nýti sér fjölbreyttan samgöngumáta svo og Borgarlínu sem þverar Hringbrautarsvæðið og stoppar í miðju svæðisins við Sóleyjartorgið.
Í tæknihluta hússins verður varaafl Landspítala staðsett ásamt kælikerfum og varakyndingu. Varaaflið tryggir að nýbyggingarnar verða aldrei rafmagnslausar og starfsemin getur haldið áfram óhindrað þó dreifikerfi rafmagns bresti. Húsið stendur við Hvannargötu, vestan megin við fyrirhugað rannsóknahús. Húsið verður á átta hæðum, þar af þrjár hæðir neðanjarðar. Bílastæða- og tæknihúsið tengist öðrum mannvirkjum á svæði Landspítalans með umferðar- og tæknigöngum neðanjarðar.
Áætlað er að heildarstærð hússins verði um 19.500 m2.
- 2300 m2 tæknirými
- 500 m2 geymslur
- 16.700 m2 bílastæðahlutann
BT húsið mun eins og aðrar byggingar í verkefni Nýs Landspítala hafa umhverfisvæna nálgun.
Stefnt er að Breeam umhverfisvottun allra bygginga, auk þess sem notendur hafa haft aðkomu að hönnun þeirra. Um er að ræða stærsta notendastudda hönnunarverkefni sem unnið hefur verið að hérlendis.