• Meðferðarkjarninn

Meðferðar­kjarni (sjúkrahús)

Meðferðarkjarninn er stærsta byggingin í uppbyggingu Nýs Landspítala og mun gegna lykilhlutverki í starfsemi spítalans. Í meðferðarkjarna munu fara fram flóknar og vandasamar aðgerðir, greiningar og umönnun sjúklinga þar sem stuðst er við háþróaða tækni og sérhæfða þekkingu. Kröfur um aðbúnað eru sambærilegar og í nýjum sjúkrahúsum í nágrannalöndum okkar. Meðferðarkjarninn er hannaður út frá starfsemi bráða- og háskólasjúkrahúss, með áherslu á einfalt og skýrt fyrirkomulag ásamt greiðum leiðum milli starfseininga og annarra bygginga.

Meðferðarkjarninn tengist öðrum starfseiningum spítalans með tengigöngum og tengibrúm.

Meðferðarhluti hússins verður á neðstu þremur hæðum þess. Á 1. hæð er aðalinngangur frá Sóleyjartorgi og bráðamóttaka sem leysir af hólmi bráðamóttökur sem í dag eru á mörgum fimm stöðum í Reykjavík. Á 1. hæð verður einnig framleiðsluapótek fyrir spítalann og neðanjarðartengingar við núverandi húsnæði spítalans.

Myndgreining, speglanir, hjartarannsóknir og smitsjúkdómadeild, sem og annað aðalanddyri meðferðarkjarnans, verða á 2. hæð en þar verður einnig ýmiss konar þjónusta svo sem matartorg, fyrirlestrasalir, smávöruverslanir og upplýsingaborð. Á 3. hæð verða skurðstofur, hjarta- og æðaþræðingarstofur og gjörgæsla ásamt móttöku, og undirbúnings – og vöknunaraðstöðu skurðstofa. Tengibrú verður á 3. hæð yfir í kvennadeild og Barnaspítala Hringsins. Fjórða hæðin er nær eingöngu tæknihæð sem þjónar meðal annars skurðstofum á 3 hæð en á hæðinni eru einnig vinnu- og hvíldarrými starfsfólks.

Legudeildir verða á 5. og 6. hæð en auk þeirra er rými til endurhæfingar á 5. hæð við útivistarsvæði sem er fyrir miðju húsi. Átta legudeildir verða í húsinu og er hverri þeirra skipt upp í þrjár einingar þar sem teymi starfsfólks sinnir að jafnaði átta sjúklingum innan hverrar einingar. Allar sjúkrastofur legudeilda eru einbýli með sér snyrtingu. Góð aðstaða verður fyrir aðstandendur á sjúkrastofum og legudeildum en í meðferðarkjarna verða þeir sjúklingar sem þurfa hvað mesta umönnun.

Meðferðarkjarni

Í kjallara hússins verða ýmis þjónusturými sem styðja við klíníska starfsemi hússins. Þar eru meðal annars búningsklefar starfsmanna, dauðhreinsun, framleiðsluhluti apóteks og framleiðsla geislavirkra efna sem notuð eru í myndgreiningu.

Meðferðar<span class=

Þá verður þar ýmis stoðþjónusta svo sem þvottastöð fyrir rúm, ræstimiðstöð, hjálpartækjalager og tæknirými. Frá kjallara verða neðanjarðartengingar til meðal annars rannsóknahúss og háskólabyggingar.

Meðferðarkjarninn er stór bygging með fjölþætta starfsemi. Honum verður deilt upp í fimm byggingarhluta til að draga úr stærðaráhrifum hans á nærumhverfið. Rýmin á milli byggingarhlutanna mynda ljósgarða sem hleypa birtu inní velflest meðferðar og vinnurými og skapa græðandi umhverfi fyrir sjúklinga, gesti og starfsfólk.

Í nýjum meðferðarkjarna verður lögð mikil áhersla á sýkingavarnir.

  • Öll sjúkraherbergi verða einmenningsherbergi með sér salernisaðstöðu
  • Sérstök eining HLIU (high level isolation unit) ,sem er hluti af smitsjúkdómadeildinni, sem var upphaflega hugsuð fyrir alvarlegen veirufaraldur eins og Ebólu og á eftir að nýtast vel fyrir Covid19 faraldri ef upp kemur. Inn á þá einingu verður sér inngangur sem er með sex legurými og öll tæknikerfi eru sér svo sem loftræsing og frárennsli
  • Skurðstofa, undirbúningur og vöknum með einangrunarrými
  • Skurðstofurnar, vöknun og gjörgæsla verður hönnuð þannig að hægt verður að skipta þeim upp í sóttvarnarhólf sé þess þörf eða sem varúðarráðstöfun. Gert er ráð fyrir þvi í allri tæknihönnun og í loftræsikerfi spítalans
  • Á bráðamóttöku verður gert ráð fyrir beinu aðgengi inn á einangrunarstofu og hægt að aðskilja móttöku t.d. fyrir Covid sjúklinga
  • Hönnun hússins er sveigjanleg sem þýðir að hægt verður að breyta einstaka rýmum og aðlaga húsnæðið þörfum hverju sinni
  • Corpus hópurinn vinnur að fullnaðarhönnun á nýjum meðferðarkjarna. Í Corpus teyminu eru Hornsteinar arkitektar, Basalt arkitektar, LOTA verkfræðistofa, VSÓ Ráðgjöf, TRIVIUM ráðgjöf, NIRAS, De Jong Gortmaker Algra, Buro Happold engineering, Reinertsen og Asplan Viak.