Um verkefnið
Samkvæmt lögum nr. 64/2010 mun nýr Landspítali rísa við Hringbraut.
Á næstu árum verður unnið að fullum krafti að byggingu á nýjum meðferðarkjarna (sjúkrahúsi). Nýtt Sjúkrahótel var tekið í notkun árið 2019 en einnig verða byggð rannsóknahús og bílastæða og tæknihús. Stefnt er að því að framkvæmdum við öll húsin verði lokið á þriðja áratug 21. aldarinnar, en heildarbyggingarverkefnið mun taka yfir nær áratug.
Verkefni NLSH nær einnig til uppbyggingar stoðbygginga Landspítala svo sem eldhúss, vörumóttöku og flokkunarstöðvar. NLSH mun annast undirbúning og innkaup á lækninga- og rannsóknatækum ásamt öðrum nauðsynlegum búnaði í nýbyggingarnar.
NLSH ohf. er ábyrgðaraðili að Nýjum Landspítala. Víðtækt samstarf er við hagsmunaaðila s.s. stjórnvöld, FSRE, Landspítala, Háskóla Íslands og sjúklingasamtök. Verkefnið á sér langa forsögu, en með lögum nr. 64/2010, sem samþykkt voru á Alþingi 2010, gat NLSH hafist handa við forhönnun bygginga og gerð skipulags fyrir svæðið. Félagið samdi við Spital-hópinn sem varð hlutskarpastur að lokinni alþjóðlegri hönnunarsamkeppni sem haldin var sama ár. Á árunum 2010–2012 stóð yfir forhönnun og deiliskipulagsgerð en jafnframt var gerð breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur og breyting á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem unnið var á vegum Reykjavíkurborgar.
Nýtt deiliskipulag við Hringbraut hlaut staðfestu í apríl 2013. Í mars 2013 samþykkti Alþingi breytingu á lögum um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Breytingin fól í sér að verkefnið yrði þaðan í frá opinber framkvæmd og heyrir hún undir lög nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda.
Þjóðarsjúkrahús er ein mikilvægasta heilbrigðisstofnun landsins. Sjúkrahúsið er í forystu heilbrigðisþjónustu landsmanna. Það er mikilvægt að sjúkrahúsið geti gegnt hinu mikilvæga hlutverki sínu sem allra best. Nú er svo komið að sjúkrahúsið starfar á sautján stöðum á höfuðborgarsvæðinu í um hundrað húsum. Byggingarnar voru flestar hannaðar upp úr 1950. Það er ljóst að hlutverk og starfsemi sjúkrahúsa hefur tekið gífurlegum breytingum á þessum tíma og húsin svara ekki kröfum nútímans. Núverandi húsnæði getur ekki lengur tekið við þeim tækjabúnaði sem þarf til að nútímalækningar verði stundaðar vegna skorts á rými, lofthæð og burðarþoli.
Breytt hlutverk Landspítalans, aukin þekking á samhengi sjúkrahúshönnunar og meðferðarárangurs, ný og fyrirferðameiri tæki, sem og kröfur sjúklinga og aðstandenda um að friðhelgi einkalífs sé virt kallar allt á nýtt húsnæði fyrir Landspítalann.
Aðkomuleiðir að Hringbrautarlóðinni hafa reynst bestar af þeim kostum sem skoðaðir hafa verið. Aðgengi sjúklinga er gott og verður enn betra með uppbyggingu samgöngumiðstöðvar í túnfæti sjúkrahússins, líkt og skipulag gerir ráð fyrir. Mikið hagræði felst í því að hluti starfsmanna getur gengið eða hjólað til vinnu við Hringbraut.
Víðtækt samstarf er á milli Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Landspítalans og við fyrirtæki sem m.a. eru í þekkingarþorpinu í Vatnsmýrinni. Í þessari nálægð felast ómetanleg tækifæri fyrir uppbyggingu nýs Landspítala sem háskólasjúkrahúss landsins því samlegðaráhrifin við þekkingarsamfélagið skipta verulegu máli. Að hafa háskólasamfélagið í nærumhverfinu treystir undirstöður þekkingarsköpunar á sjúkrahúsinu og skapar um leið frjóan jarðveg til kennslu nemenda í heilbrigðisvísindagreinum.
Nýtt sjúkrahús mun uppfylla nútímakröfur sem gerðar eru til heilbrigðisþjónustu. Sjúkrahús fyrir nýja tíma sem stendur undir þeirri ábyrgð að vera sjúkrahús allra landsmanna.