Samkeppni um listaverk við Sóleyjartorg

Nýr Landspítali ohf. (NLSH) býður myndlistarmönnum að taka þátt í forvali að lokaðri samkeppni um listaverk. Samkeppnissvæðið er Sóleyjartorg, aðalaðkomutorg meðferðarkjarnans, ásamt anddyri byggingarinnar. Sóleyjartorg nær frá aðalbyggingu gamla Landspítalans yfir að miðgötu svæðisins, Burknagötu.

Lögð er áhersla á að listaverkið verði hluti af heildarhönnun almenningsrýmisins í kringum nýja Landspítalann og verði áberandi kennileiti svæðisins. Með listaverkum er átt við hvers konar fasta og lausa listmuni, svo sem veggverk unnin beint á veggi, lágmyndir, höggmyndir og aðra listræna fegrun. Sérstaklega er óskað eftir tillögum að listaverkum sem geta verið eiginlegur byggingarhluti, að hluta eða í heild, og órjúfanlegur hluti af byggingunni eða umhverfi hennar.

Samkeppnin mun fara fram eftir samkeppnisreglum Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM), þ.e. lokuð samkeppni með opnu forvali. Í fyrri áfanga samkeppninnar, forvali, mun forvalsnefnd velja fimm myndlistarmenn og/eða listamannahópa úr innsendum þátttökutilkynningum til þátttöku í seinni hluta samkeppninnar. Þeir fimm listamenn og/eða listamannahópar sem valdir verða til þátttöku í lokaða hluta samkeppninnar fá greiddar kr. 600.000.- án vsk. fyrir að skila inn vel útfærðri tillögu að listaverki/-um ásamt lýsingu á efnistökum, tæknilegri útfærslu og kostnaðaráætlun.

Tilkynning um þátttöku skal innihalda:

 

  • Nafn/nöfn þátttakenda, kennitölu/-r og netfang/-föng. 
  • Stuttan texta þar sem gerð er grein fyrir áhuga á verkefninu ásamt forsendum og hæfni til þess að útfæra varanleg útilistaverk. 
  • Ferilskrá og myndir af fyrri verkum. 
  • Lauslega tillögu að fyrirhuguðu listaverki/-um. Heimilt er að senda inn tillögu að fyrirhuguðu listaverki /-um.

  • Aðrar upplýsingar sem talið er að geti styrkt þátttökutilkynninguna.

Nánari upplýsingar um bygginguna og umhverfi hennar má finna í minnisblaði vegna forvals að samkeppni um listaverk á Sóleyjartorgi.

Upplýsingasíða um listaverk á vegum Nýs Landspítala.

Rétt til að tilkynna þátttöku í forvali hafa allir myndlistarmenn. Tungumál samkeppninnar er íslenska.

Fyrirspurnir í forvalshluta samkeppninnar skal senda á netfangið: trunadur@nlsh.is, fyrir 2. júní.

Umsóknir um þátttöku sendist á netfangið: trunadur@nlsh.is fyrir kl. 16:00, 9. júní 2023.

Forvalsnefnd velur úr innsendum umsóknum fimm listamenn til þátttöku í lokaða hluta samkeppninnar.

Við val á listamönnum og/eða listamannahópum verður haft að leiðarljósi að tillögurnar styðji það markmið NLSH ohf. að myndlist sé veigamikill og afgerandi hluti umhverfis og mannlífs í og við nýja Landspítalann og að listaverkin stuðli að því að skapa örvandi umhverfi fyrir alla aldurs- og þjóðfélagshópa, sjúklinga og starfsmenn.

Umsækjendum verður tilkynnt um val þátttakenda í seinna stigi samkeppninnar eigi síðar en 30. júní 2023. Samkeppnistíminn er frá 3. júlí til 4. september 2023.

Dómnefnd mun velja eina eða fleiri tillögur til endanlegrar útfærslu. Dómnefnd er heimilt að hafna öllum tillögum.

Nánari upplýsingar um byggingarverkefni Nýs Landspítala á Hringbraut má finna á vef þessum ( nlsh.is ).